15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

135. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, sem hér er til 2. umr., er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með lítils háttar breytingum. Það má eiginlega segja, að þetta frv. sé um breytingar á gildandi lögum m kjötmat o.fl., flest ákvæði þeirra l. eru tekin lítt eða ekki breytt upp í þetta frv., en þar að auki eru í frv. nokkur ákvæði ný, sem ekki er í gildandi l. Miða þessi ákvæði að því að bæta enn frekar en áður meðferð sláturafurða og koma sláturhúsum landsins í betra horf en nú er.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja frv. grein fyrir grein, hæstv. landbrh. gerði því glögg skil við 1. umr. hér í d., og svo eru margar greinar þess, eins og ég gat um, shlj. gildandi lögu um þetta efni. En ég vildi aðeins minnast á örfá nýmæli, sem í frv. eru.

Er þá fyrst að minnast á 2. gr. frv., sem er um sláturhús. Í 1. málsgr. 2. gr. er kveðið svo á, að öllum sláturfénaði skuli slátrað löggiltum sláturhúsum. 2. mgr. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. getur þó, þar sem brýn nauðsyn krefur, leyft slátrun til eins árs í senn í sláturhúsum, sem ekki eru svo úr garði gerð, að löggilding geti farið fram í þeim, ef yfirdýralæknir og hlutaðeigandi héraðsdýralæknir telja, að slátrun og meðferð sláturafurða geti tekizt þar á viðunandi hátt. Undanþágu má þó ekki veita nema í 3 ár frá gildistöku þessara laga.“

Með þessu ákvæði, að takmarka undanþáguheimildina við 3 ár, er stefnt að því, að endir verði bundinn á það vandræðaástand , sem verið hefur á þessum málum, og slátrun geti innan fárra ára farið öll fram í löggiltum sláturhúsum. Um þetta segir í grg., sem fylgir frv.: „Í gildandi l. er ráðh. heimilt að veita undanþágu til slátrunar til eins árs í senn í húsum, sem eru svo ófullkomin að gerð og búnaði, að löggilding getur ekki farið fram. Í framkvæmd hefur þetta orðið þannig, að allmörg sláturhús hafa ekki hlotið löggildingu, en þar verið slátrað árum saman í skjóli undanþáguheimildar, en lítt eða ekki hirt um endurbætur, enda mörg þessara húsa það léleg, að vart mun nú borga sig að leggja mikið fjármagn í viðgerðina. En nú er lagt til, að eigi megi veita slíkar undanþágur nema þrisvar sinnum og þá til eins árs í senn. Eftir það ber að loka sláturhúsum þessum, unz þau hafa verið lagfærð eða endurbyggð svo, að þau séu löggildingarhæf, ella verði þau lögð niður.“ Verður að segja, að þetta sé til bóta og geti bundið enda, eins og ég sagði áðan, á það ástand, sem verið hefur í þessum málum.

Ég vil aðeins minnast nokkrum orðum á ákvæði 12. gr. frv., en þar er um nýmæli að ræða. Í 12. gr. frv. segir:

„Yfirdýralæknir eða heilbrigðisnefnd, sem í hlut á, getur fyrirskipað sérstaka læknisskoðun á kjöti og slátri, enda þótt það hafi áður hlotið lögboðna heilbrigðisskoðun og merkingu. Eins má fyrirskipa gæðamat á sláturafurðum, þótt það hafi áður farið fram.“

Um þetta atriði segir í grg. frv.:

„Mjög hefur færzt í vöxt hin síðari ár, að kjöt og aðrar sláturafurðir séu fluttar um langan veg beint á markað innanlands eða í frystigeymslu fjarri sláturstað. Í sumum tilvikum geta þessir flutningar tekið alllangan tíma, og þegar hlýtt er í veðri, hafa vörur spillzt í flutningum, þó að þær hafi verið óaðfinnanlegar, þegar flutningar hófust eða þegar heilbrigðisskoðun og mat fór fram á afurðunum. Hefur þráfaldlega komið fyrir, að þurft hefur að eyða sláturafurðunum af þessum sökum, þar sem þær hafa reynzt óhæfar til manneldis, er þær bárust á markaðsstað eða geymslustað. Oft má rekja slíkar skemmdir til hirðuleysis í meðferð vörunnar og of mikils annríkis fólks í sláturtíð.“

Enn fremur segir: „Því virðist eðlilegt og raunar sjálfsagt, að sett verði í löggjöf þá, er mál þessi varðar, ákvæði, sem girt gætu fyrir þá annmarka og tjón, sem að ofan er lýst. Því er lagt til, að heimilt sé að láta fara fram endurskoðun á kjöt- og sláturafurðum, ef viðkomandi heilbrigðisnefnd eða yfirdýralæknir telur ástæðu til. Ætti það að veita nokkurt aðhald um vandvirkni og aðgæzlu þeim, er sjá um meðferð, geymslu og flutning sláturafurða.“

Um þetta er auðvitað ekki nema allt gott að segja, og þetta eru staðreyndir, sem hafa þráfaldlega komið fyrir á hverju ári í sláturtíðinni, sem öllum er kunnugt um, sem fylgjast með þessum málum.

Í 12. gr. er einnig sagt í 2. mgr.:

„Bæjar- eða sveitarfélag skal sjá fyrir fullnægjandi húsnæði til framangreindrar skoðunar á sláturafurðum gegn sanngjörnu gjaldi, er eigandi afurðanna greiðir samkv. nánari fyrirmælum rn. að fengnum till. bæjar- eða sveitarfélaga.“

Búast má þó við, að þetta yrði óþarflega erfitt í framkvæmd. Eðlilegra fyndist manni, að þetta mat, ef fram færi, yrði framkvæmt á móttökustað sláturafurðanna, sölustað eða þar sem afurðirnar á að frysta. Annars yrði um tvíverknað og óþarfa fyrirhöfn að ræða. Verður að vænta, að í framkvæmd verði þetta á þann veg, að ekki valdi óþarfa erfiðleikum eða kostnaði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. Það liggur ljóst fyrir og var skýrt við 1. umr., og nokkrar umr. fóru þá fram um nokkur atriði þess, en landbn. hefur rætt frv. á tveim fundum og telur, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, og leggur því einróma til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins í nefndinni.