154. löggjafarþing — 105. fundur,  30. apr. 2024.

efling og uppbygging sögustaða.

941. mál
[18:07]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu og uppbyggingu sögustaða.

Á Íslandi er sannarlega að finna merka sögustaði víðs vegar um landið. Sumir staðanna tengjast fornum stofnunum landsins, eins og biskupssetrunum, aðrir hafa sterk tengsl við fornsögurnar og enn aðrir vísa til sögulegra atburða frá eldri og jafnvel yngri tímum. Sögustaðirnir geta einnig tengst einstaklingum sem hafa leikið stórt hlutverk og skipa sérstakan sess í sögu þjóðarinnar. Sögustaðir gegna þannig fjölbreyttu hlutverki og geta einnig haft ólíka merkingu. Sögustaðir eru jafnframt hluti af umhverfinu og þar með ásýnd lands og náttúru. Þannig getur staðurinn sem slíkur, landslagið og þær sögur sem því tengjast og hafa varðveist úr fortíðinni, gegnt mikilvægu hlutverki í því að fólk minnist liðinna atburða og læri að þekkja minni og gildi úr sögu þjóðarinnar. Það er því óhætt að segja að sögustaðir gegni mikilvægu hlutverki í menningu þjóðarinnar en þeir eru líka til þess fallnir að gefa fólki kost á að minnast þess liðna og skapa samkennd meðal þjóðarinnar.

Sem dæmi um sögustað nægir að nefna Þingvelli en staðurinn og náttúra hans eru samofin sögu og menningu landsins. Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 og þar með viðurkennt að staðurinn hafi einstakt gildi, ekki aðeins fyrir Ísland heldur fyrir heimsbyggðina alla. Þingvellir eru einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, hvort sem litið er til innlendra eða erlendra ferðamanna.

Virðulegi forseti. Eitt af verkefnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að vinna að aðgerðaáætlun á grundvelli framtíðarsýnar ferðaþjónustu til ársins 2030. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Í því felst m.a. að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun. Ferðaþjónusta er ein af stærstu atvinnugreinum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Samkvæmt spám má gera ráð fyrir að 2,4 milljónir ferðamanna komi til Íslands árið 2024 og um 2,5 milljónir árið 2025. Náttúra landsins er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn og fjölsóttustu ferðamannastaðirnir eru náttúrustaðir. Hins vegar er það svo að íslensk menning er einnig stór þáttur í því að laða ferðamenn til landsins. Í gögnum Ferðamálastofu kemur fram að um 55% erlendra ferðamanna sem sóttu Ísland heim árið 2022 sögðu að Íslendingar og íslensk menning hefði haft áhrif á ákvörðun þeirra að heimsækja Ísland. Það er því ljóst að tækifæri til uppbyggingar í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu eru býsna mikil.

Virðulegi forseti. Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að styðja enn frekar við uppbyggingu menningarferðaþjónustu á sögustöðum og móta slíkum áherslustöðum viðeigandi umgjörð. Á umliðnum árum hefur komið fram krafa um að heildarsýn sé mótuð um einstaka sögustaða varðandi ásýnd þeirra, hlutverk og starfsemi. Nú í kjölfar stefnumótunar á sviði ferðamála er lag að hefja þá vinnu með markvissum hætti. Ég legg áherslu á að uppbygging á sögustöðum verði í samræmi við nýja aðgerðaáætlun á sviði ferðamála og stuðli að áhugaverðum áfangastöðum fyrir ferðamenn, en sé um leið nærsamfélaginu og samfélaginu öllu til heilla.

Auk Þingvalla má sem dæmi um sögustaði nefna biskupssetrin í Skálholti og á Hólum, Reykholt í Borgarfirði, Odda á Rangárvöllum, Skriðuklaustur í Fljótsdal, Hrafnseyri í Arnarfirði og Hraun í Öxnadal. Sumir þessara staða hafa nú þegar mótað sér sess sem sögustaðir en aðstæður þar eru mismunandi. Þess vegna er mikilvægt að átt verði samráð við alla hagsmunaaðila, en þar á meðal eru áfangastaðastofur landshlutanna, landeigendur, rekstraraðilar og síðast en ekki síst heimafólk og nærsamfélag. Þá legg ég líka áherslu á það að uppbygging á sögustöðum getur verið með fjölbreyttum hætti, m.a. með upplifun sem og stafrænni og skapandi miðlun menningar og sögu.

Virðulegi forseti. Með uppbyggingu sögustaða er markmiðið að standa vörð um staðinn sjálfan og þá sögu sem hann hefur að segja. Þess vegna mæli ég fyrir þessari þingsályktunartillögu. Með því að efla og festa sögustaði í sessi sem áhugaverða áfangastaði gefst um leið einstakt tækifæri til að miðla sögu og menningu lands og þjóðar. Komandi kynslóðir læra að þekkja landið og söguna í gegnum þessa staði og þá menningarmiðlun og starfsemi sem þar fer fram.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari fyrri umræðu legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til umfjöllunar hv. allsherjar- og menntamálanefnda og svo til síðari umræðu.