154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa snörpu og góðu umræðu um mikilvægt mál. Hæstv. ráðherra stóð undir væntingum þegar hann tók fyrri helming ræðu sinnar í að söngla: Virkja, virkja, virkja. Hann benti síðan á sóknarfærin sem kalla ekkert á virkjanir. Vegasamgöngur er hægt að afgreiða án nýrrar orku. Þar eru orkuskiptin í hendi. Hins vegar benti ráðherrann réttilega á orkuskipti sem myndu kalla á mikla orku. Útgerðin og flugið væru mjög orkufrek orkuskipti, en það er sýnd veiði en ekki gefin. Þar er tæknin ekki einu sinni til staðar. Í seinni helmingi ræðu ráðherrans voru flest svör giska óskýr. Ég klóra mér enn í kollinum varðandi það hvert sé eiginlegt markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun fyrir 2030. Ráðherrann virðist stefna á 40% sem ríkisstjórnin ætlar að sækja í samningum til Brussel, en síðan virðist Umhverfisstofnun hafa reiknað út úr ókominni aðgerðaáætlun að niðurstaðan verði 35% af aðgerðunum. Og ég verð bara að benda félögum mínum í þingflokki Vinstri grænna á það að hvorug þessara tala nær upp í 55% markmiðið sem er í stjórnarsáttmálanum. Það er ranghugmynd hjá Vinstri grænum að það sé markmið ríkisstjórnarinnar. Svo verð ég að benda á að þessa ofurtrú ráðherra á að öll orka sem hér sé framleidd muni einhvern veginn sjálfkrafa fyrir töfra skila sér beint í orkuskipti vantar náttúrlega einhverja raunveruleikatengingu.

Allt ber þetta okkur að þeim brunni að við þurfum loftslagsstefnu fyrir Ísland. Við þurfum leiðtoga í ráðuneyti loftslagsmála sem setur stefnu sem endurspeglar þann mikla vilja (Forseti hringir.) sem almenningur sýnir til grænna umskipta, stefnu sem byggir á þessum góða grunni sem ríkulegar auðlindir hafa gefið okkur, stefnu sem byggir upp betra (Forseti hringir.) og heilnæmara og skemmtilegra samfélag til framtíðar. En til þess þurfum við nýja ríkisstjórn þar sem flokkar sem eru sammála um þessa stefnu sitja saman við borðið.