154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eins og ég nefndi hérna áðan ræðum við stórt og mikilvægt mál og Ísland vill vera þar leiðandi. Svo gagnrýndi ég reyndar aðeins hvernig menn nálgast það. En hversu mikil geta áhrif okkar orðið? Því að í samanburði við önnur lönd þá losum við ekki mikið. Ísland losar á við aukninguna, ekki losunina heldur aukninguna, í Kína á tveimur sólarhringum og níu klukkustundum. Með öðrum orðum: Ef Ísland hyrfi af landakortinu, sykki í sæ, þá væri bara aukningin í Kína næstu tvo daga og níu klukkustundir þar á eftir til þess fallin að vinna það upp. Hversu miklu við ætlum við að fórna fyrir svo lítil áhrif? Þá myndu einhverjir hugsanlega segja, og eðlilega: Ja, þótt Ísland sé lítið þá getum við reynt að hafa góð áhrif, sýna fordæmi, hafa áhrif á aðra. Vandinn er bara sá að önnur lönd, lönd utan Evrópu ekki hvað síst, hafa engan áhuga á að fara eftir þessu fordæmi og hafa aukið gríðarlega, Kína auðvitað sérstaklega, en það má nefna mörg stór lönd til viðbótar, losun sína og hyggjast gera það áfram, af því að þau eru að byggja upp velferð í sínum löndum og framleiðslu, á meðan hér á Vesturlöndum og ekki hvað síst á Íslandi nálgast menn þetta þannig að það þurfi að draga úr neyslu, með öðrum orðum draga úr velferð, og leggja ný og ný gjöld, refsigjöld á borgarana, til þess að ná niður einhverju af þessum tveimur sólarhringum og níu klukkustundum sem er aukningin í Kína. Við verðum þess vegna að mínu mati að forgangsraða miklu betur og þar getur stærsta framlag okkar orðið, fyrir utan auðvitað álframleiðsluna hér, sem er stærsta framlag okkar til loftslagsmála, að breiða út í auknum mæli þá tækni sem Íslendingar hafa þróað og munu þróa.