154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við erum búin að fara aðeins yfir vandamálin og yfir stöðuna en ég væri mjög gjarnan til í að sjá á spilin hjá ríkisstjórninni, sjá raunverulegan árangur raungerast. Við verðum að hraða orkuskiptum á öllum sviðum, þetta vitum við, því að ef eitthvað hefur gerst á starfstíma þessarar ríkisstjórnar þá hefur losun aukist, hún hefur ekki minnkað. Við skulum aðeins raunveruleikatengja þetta. Vestfirðingar búa við öfug orkuskipti þar sem áformað er að keyra á varaaflsvélum, sem ganga fyrir hverju? Dísilolíu — í 100 daga á þessu ári hið minnsta til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns, grunninnviði á fjörðunum. Það er útlit fyrir að 30% vestfirskra heimila hið minnsta muni því reiða sig á olíu til húshitunar vegna skorts á grænni orku. Við komumst ekki hjá því að sjá að framkvæmdir í orkugeiranum hafa stöðvast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það hafa ekki verið gefin út leyfi fyrir nýjum virkjunum til að koma í veg fyrir svona óskapnað eins og er á Vestfjörðum þegar eftir því hefur verið leitað. Það er verið að seinka öllu ferlinu um þrjú, fjögur, fimm ár, kostir sem eru m.a. á rammaáætlun.

Virðulegi forseti. Það sem ég vil líka draga fram er að við verðum, eins og segir m.a. í stefnu Viðreisnar, að leggja árlega fram aðgerðaáætlun og uppfæra markmið okkar byggð á samþykktri loftslagsstefnu og alþjóðlegum skuldbindingum. Þetta er ekki nema sjálfsagt, en aðgerðaáætlun um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum vantar af hálfu ríkisstjórnar og átti að birta nú þegar í þessum mánuði. Auðvitað er þetta að vissu leyti dæmigert fyrir ríkisstjórnina. Það vantar aðgerðir, það vantar ákvarðanir, það vantar stefnu og leiðtoga. Og ég vil taka undir það sem hér var sagt áðan: Það vantar forystu óhræddra ráðamanna hér í þinginu sem þora að taka okkur áfram í baráttunni við þessa hamfarahlýnun og líka við að vera raunveruleikatengd hér heima (Forseti hringir.) um hvað við getum gert betur. Verum minnug þess, og ég þreytist ekki á að minna ríkisstjórnin á það, að allar okkar ákvarðanir verða að vera byggðar á almannahagsmunum framar sérhagsmunum.