154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:42]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir umræðuna hérna í dag. Hún er auðvitað búin að fara um víðan völl en ég held að við getum öll verið nokkuð sammála um að það er mikilvægt að horfa á stóru myndina og horfa á heiminn og hvernig okkar aðgerðir skila sér út í hið stóra hagkerfi. Einnig held ég að það liggi í augum uppi að til þess að við náum þessum orkuskiptum og náum árangri í loftslagsmálum þá þurfum við að minnka olíunotkun og brennslu jarðefnaeldsneytis hér á landi. Ég benti á það í fyrra máli mínu að 40% af því sem iðnaðurinn er að nota er jarðefnaeldsneyti og það er alveg gríðarlegt magn og til þess að við getum unnið bug á þessu þá þarf að virkja meira. Við þurfum meiri græna endurnýjanlega orku.

Af því að ég kom inn á mikilvægi samninga varðandi skerðanlega orku þá langar mig aðeins að halda áfram þeirri umræðu. Ég kom inn á kostnaðinn fyrir fyrirtækin en mig langar líka aðeins að tengja þetta við lýðheilsumál. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi í rauninni verið gerð einhvers konar úttekt eða einhver rannsókn hérlendis eða erlendis á magni þungmálma í börnum og ungmennum og jafnvel einstaklingum sem búa við þá firði þar sem er verið að brenna olíu í tengslum við fiskimjölsverksmiðjur og annað. Það væri fróðlegt að athuga hvort það hefði hreinlega áhrif og þetta væri líka tengt lýðheilsu þar sem við erum að tala kannski um stóru myndina.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er mikilvægt að við leggjumst öll á árarnar, hvort sem það er ríkisstjórnin sem einmitt náði að losa um rammann sem hafði setið fastur í þinginu — nú þekki ég ekki þá sögu því að ég var ekki hér á þingi þegar það mál stóð fast í mörg ár. En við náðum að losa um það og þar eru komnir fram nýtingarkostir og ég bind vonir við að þeir verði að veruleika innan skamms tíma. Við vitum að þetta tekur allt tíma en vissulega er búið að stoppa þessa stöðnun og koma af stað árangri í þessum málum og það er mikilvægt að halda því líka til haga.