154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 1. febrúar síðastliðinn fengu flestir launþegar 23.750 kr. útborgaðar á mánuði. Þeir fá aftur sömu upphæð að lágmarki 1. janúar næstkomandi. Samtals eru þetta um 47.000 kr. yfir tímabilið en þeir sem eru á lífeyrislaunum, hvað fengu þeir? Þeir fengu ekki nema brotabrot af vísitöluhækkun um síðustu áramót og þeir munu ekki fá neitt núna í sumar eftir því sem ég heyrði frá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Munu þeir fá 23.750 um næstu áramót? Það efast ég um. En á sama tíma og verið er að skerða lífeyrissjóð, fyrst skatta hann og síðan skerða hann upp undir 70%, 80%, 90%, þá er fólk núna að fá orlofsuppbót og desemberuppbót í lífeyriskerfinu — en fær það það? Nei, þessi skerti lífeyrissjóður, sem er lögþvingaður, fólk verður að borga í hann, er notaður líka til að taka af þeim orlofsuppbót og desemberuppbót. Það er varla hægt að hafa meira ofbeldi.

Í nýrri endurskoðun almannatryggingakerfisins á líka að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Þar á að lækka heimilisuppbót úr 68.000 í 57.000 af því að þeir sem eru á leigumarkaði hafa það svo rosalega gott, búið að hækka leiguna um 40.000–60.000 kr. á mánuði. Verst settu öryrkjarnir, sem eru með aldursuppbót, 63.000 kr. á mánuði, hafa það svo ótrúlega gott að það þarf nú að lækka hana um 30.000 kr. á mánuði í boði ríkisstjórnarinnar, af því þeir hafa hækkað. Á sama tíma eru einstaklingar að fá 4.000 kr. hækkun, spáið í það, og það eftir eitt og hálft ár. En á sama tíma og vinnumarkaðurinn er að semja um 47.000 kr. hækkun á sama tímabili þá ætlar ríkisstjórnin að bjóða þeim verst settu 803 kr. hækkun á mánuði eða 4.000 kr. hækkun á mánuði.