154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

nýtt örorkulífeyriskerfi og fjármögnun kjarasamninga.

[15:25]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tel ekki að öryrkjar séu of sælir af kjörum sínum, enda hef ég barist fyrir því að það hafi komið hækkanir til öryrkja á meðan ég hef setið í stóli félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það hefur gerst í minni ráðherratíð og ég held að þær breytingar sem ég hef mælt fyrir á Alþingi og eru núna til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd beri þess líka skýrt merki. Ég vonast innilega til þess að við munum hér á Alþingi geta sameinast um þær breytingar sem ég tel að verði mjög til góða og, líkt og hv. þingmaður réttilega nefndi, muni hjálpa til við að draga fólk sem er í sárri fátækt í þessum hópi a.m.k. eitthvað áfram í rétta átt. Svo er það auðvitað sameiginlegt hagsmunamál okkar allra hér inni sem viljum jafnari hag í landinu að við höldum áfram að bæta hag þessa viðkvæma hóps. Og ég veit að hv. þingmaður stendur með mér í þeirri baráttu.