154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[19:04]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ágætt upp á samhengi að gera að segja að ég er bara að velta fyrir mér þeirri aðstöðu sem skapast þegar við gerum breytingar á því umhverfi sem gildir þegar við ákveðum fasteignaskattshlutfallstölu sem gildir hverju sinni. Það er auðvitað það sem er verið að reyna að gera núna. Stóra álitaefnið í þessu er auðvitað stóra afturvirknin sem við höfum rætt um. En bara til að árétta þá snýst þetta kannski ekki um mismunandi aðstöðu. Spurning mín snerist ekki um mismunandi aðstöðu innan sveitarfélaga sem kallast þéttbýlissvæði og dreifbýlissvæði. Hér er ég hreinlega að benda á — og þetta leiðir auðvitað bara af sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, sem er stjórnarskrárvarinn — að í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er kveðið á um það að skatthlutfall í íbúðarhúsnæði skuli vera allt að 0,5%. Þetta er sú tala sem gildir um mjög stórt, of stórt, hlutfall innan til að mynda Reykjavíkurborgar um íbúðir sem eru ekki nýttar sem íbúðarhúsnæði, sem eru ekki úti á markaði, sem eru ekki til sölu, sem nýtast ekki sem leiguhúsnæði fyrir venjulegt fólk heldur eru notaðar í því skyni að vera á skammtímaleigumarkaði fyrir Airbnb eða Booking eða hvaða gáttir það eru sem eru notaðar til þess að koma þeim í umferð. Það skemmir fyrir og hefur neikvæð og slæm áhrif á markaði og í dag ræðum um það hvort löggjafinn sé ekki fær um að gera breytingar á þeim markaði. Ég er gáttuð á því að við skulum ekki þurfa að taka slaginn þar.