154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta kom svolítið til umræðu hjá nefndinni þar sem mikið var rætt fyrir nefndinni um stöðu þeirra sem eru með gistingu heima hjá sér og þeirra sem eru almennt með gististarfsemi. Það er náttúrlega þannig að það eru mjög margir sem eru með gistingu á Airbnb og á öðrum stöðum, tökum t.d. Booking, það eru ýmsar síður á netinu og það er búið að veita núna frekara fjármagn til sýslumanns t.d. til að rannsaka þetta frekar. Það eru nefnilega mjög margir sem eru með gistingu sem eru ekki með hana skráða þannig að það var ákveðið að fara að skoða þetta nánar og þetta er til vinnslu hjá sýslumanni. Þetta hefur líka verið mikið til umræðu er varðar ferðamálastefnuna því það er mjög misjafnt milli sveitarstjórna og sveitarfélaga hver staðan er í þeirra sveitarfélögum. Þess vegna er þetta hér. Eins og hv. þingmaður fór hér yfir þá var umræða frá sveitarfélögunum sem bentu okkur óformlega á að þau vildu fá frekari heimildir til að skoða þetta eða að það yrði farið að skoða þetta og við beinum því einungis til ráðherra sveitarstjórnarmála að fara nánar í kjölinn á þessu. Með þessu frumvarpi erum við einungis að fara að taka á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi sem er sem sagt meira en 90 dagar. En þetta er mjög fjölbreytt þannig að það þarf að skoða þetta nánar.