154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[18:59]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur fyrir yfirferð sína á þessu ágæta nefndaráliti í tengslum við fyrirhugaða breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þetta er auðvitað umdeilt mál. Ég hef tjáð mig um þetta mál við 1. umræðu og er umhugað um þetta mál. Það skiptir miklu máli að við áttum okkur á því að við erum löggjafinn, bara svo við byrjum á að segja það, og löggjafinn er sá sem ákveður hvaða leiðir eru réttar þegar kemur að því að takmarka mögulega réttindi annarra. Við tökum ákvarðanir um það á hverjum degi hér; þegar við breytum gjöldum, þegar við kveðum á um forgang einna hagsmuna umfram aðra.

Ef ég horfi á þetta tiltekna nefndarálit þá kemur þar fram að nefndin beinir því til ráðherra sveitarstjórnarmála að leitast verði við að tryggja jafnræði aðila við álagningu opinberra gjalda sveitarfélaga, svo sem fasteignaskatts, og að opinber gjöld þeirra sem reka rekstrarleyfisskylda gististarfsemi og hafa skráð starfsemina lögum samkvæmt og þeirra sem ekki hafa skráð fasteign sína en nýta hana þó til sölu á gististarfsemi, umfram leyfilegt tekjuviðmið heimagistingar, verði sambærileg. Væntanlega er verið að vísa hér til laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Ég myndi gjarnan vilja, ef hv. þingmaður hefur tök á, fá nánari útskýringar á því hvaða ákvæðið hér um ræðir vegna þess að ég stóð í þeirri meiningu að það væri hreinlega það sem við værum að reyna að gera með þessari löggjöf og hvernig ráðherra sveitarstjórnarmála væri frekar unnt að gera það í gegnum lög nr. 4/1995, en ekki þessi lög.