154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þann tíma sem ég hef setið á þingi hefur það tíðkast af og til að nefnd kalli ekki eftir að mál fari til umsagnar þegar um nefndartillögur eða -frumvörp er að ræða, þ.e. mál sem eru flutt að frumkvæði nefndarinnar og þau eru alla jafna þannig gerð að þau fjalla um mjög afmörkuð atriði, eru ekki einhver heildarstefnumótun eða eitthvað slíkt. Þannig að mér finnst þetta mjög skrýtin málsmeðferð og ég endurtek spurningu mína hvort hv. formanni finnist rétt að gefa smá tíma til umsagna í ljósi þess að við erum hvort eð er ekki að fara að afgreiða þetta mál hérna fyrir þessa löngu helgi sem við erum á leiðinni í, þ.e. í atkvæðagreiðslu. Það liggur alveg fyrir. Er ekki rétt að gera það? Mér finnst þetta ekki eðlileg málsmeðferð, virðulegi forseti, burt séð frá samstöðu innan nefndarinnar þá er þetta almennt ekki gert. Ég geri hér með athugasemd við það og óska eftir því að málið verði kallað aftur inn til nefndarinnar til að það fái eðlilega þinglega meðferð. Það er ekki þar með sagt að ég styðji ekki þetta mál, ég reyndar styð þetta mál heils hugar.

Ég verð þó að benda á að mér finnst skrýtið að bæði formaður utanríkismálanefndar og framsögumaður málsins kannist ekki við að það sé ekki talað um þetta í tillögunni. Það er vissulega ekki talað um kaup á hergögnum í tillögutextanum sjálfum en það er mjög skýrt í greinargerðinni hvað er átt er við með 3. gr. tillögutextans. Þar segir, með leyfi forseta: „Stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.“ Hér er m.a. talað um að verja fjármunum í sjóði sem kaupa hergögn að ósk Úkraínumanna. Eins og ég segi þá kann okkur að greina á um hvort það sé rétt að við sem herlaus þjóð sem hefur sett frið í öndvegi eigum að taka þátt í kaupum sem þessum. Mér hefur t.d. þótt til mikillar fyrirmyndar hvernig við styðjum við sprengjuleit og (Forseti hringir.) aðra borgaralega aðstoð við Úkraínu. En þetta er eitthvað sem á skilið lýðræðislega umræðu og ég kalla eftir viðbrögðum við því.