154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:07]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður gerir athugasemd við það að nefndin hafi ekki leitað eftir umsögnum og ég get greint frá því að það var bara alger samhljómur um það í nefndinni, það var svo mikil samstaða í þessu máli að það var ákveðið að fara þessa leið, að leita ekki umsagna. Mér skilst, þótt ég sé ný hér, að þetta sé háttur sem stundum sé hafður á og ég held að það hafi líka varðað áherslu á framgang málsins í þinginu. Eftir því sem ég best veit þá hefur þess ekki verið óskað að við leitum frekari umsagna. Varðandi aðstoð eða framlög Íslands til sameiginlegra sjóða Evrópuþjóða, vina- og nágrannaþjóða okkar sem hafa m.a. verið að kaupa skotfæri og loftvarnabúnað en líka sérstakan varnarklæðnað fyrir konur og þess háttar, þá er auðvitað ekkert slíkt tiltekið í framlagðri tillögu sérstaklega. Það hefði a.m.k. ekki verið eitt af því sem hefði verið leitað umsagnar um. Við fengum sérstaklega til okkar stjórnvöld til að fara yfir þau mál. Ég er nú þeirrar skoðunar, af því einmitt að við erum friðsöm þjóð og við erum herlaus þjóð, að við hljótum að sýna því fullan skilning hvað varðar fullvalda sjálfstæða þjóð sem hefur verið ráðist á með svo ófyrirleitnum og ólögmætum hætti að það dugir ekki endalaust að senda þeim lopasokka. Ég segi bara: Ef við bregðumst ekki við ákalli Úkraínumanna um að senda þeim aðstoð eða aðstoða aðra þjóð við að kaupa skotfæri og loftvarnir, sem Úkraínumenn hafa lagt höfuðáherslu á, þá verða engir eftir til að senda lopasokka.