154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:58]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja að það er náttúrlega óvíst hvernig þessi mál munu þróast og sérstaklega núna varðandi stríðið og hvort menn sjái einhver færi á að fara að tala saman sem virðist ekki vera í sjónmáli. Við þurfum að sjá hvernig fram vindur, þetta hefur verið að sveiflast frá einu misseri til annars, staðan líka. Ég get ekki farið með það sem ég fékk að heyra þegar ég heimsótti Úkraínu, þá fékk maður mjög nákvæma lýsingu á mati þeirra á því hvernig hlutirnir gætu gengið fyrir sig, hvernig staðan gæti verið orðin eftir hálft ár eða eitt ár. Ef A, B, C, D þá verður það svona og svona og það voru mishryllilegar sviðsmyndir, upp í það að vera mjög fallegar sviðsmyndar að þeirra mati og byggðust á alls konar hlutum varðandi stuðning o.fl. Það var svona yfirferð í varnarmálaráðuneytinu síðast í ágúst og ég ætla ekki að bollaleggja meira um það.

Varðandi hvað þetta muni kosta þá erum við alla vega í þessari stefnu að tala um að Ísland ætli alla vega ekki að leggja fram minni stuðning heldur en við höfum gert og 20% meira á þessu ári heldur en árið á undan í stuðningi við Úkraínu. En síðan er talað um það að við munum horfa til þess að gera jafnvel enn betur og jafnframt þurfum við að horfa til þess hvað önnur Norðurlönd eru að gera á sama tíma þannig að einhverju leyti verður þetta dýnamískt varðandi ákvarðanir frá ári til árs og hvernig við fylgjum því eftir að vera samhljóða öðrum Norðurlöndum í þessum stuðningi. (JFM: Upphæðir?) Þær geta þá hlaupið aðeins til eftir því hvernig það allt saman liggur en ekki lægri upphæðir en við höfum verið að setja í stuðning undanfarið.