154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:55]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og einhver hefur tekið eftir þá er ekki minnst á hergögn eða slíkt í framsöguræðunni sem ég fór hér með. Ég talaði um í kynningunni um mannúðaraðstoð og efnahags- og innviðauppbyggingu til að treysta öryggi íbúa landsins sem getur verið fólgið í ýmsu öðru en hergögnum. Þannig kaus ég að kynna málið hér í minni framsögu og vek athygli á því orðalagi sem ég valdi þar. Síðan er þessi áhersla á öryggi Úkraínu ásamt friðarviðleitni á forsendum úkraínsku þjóðarinnar. Ég held að með áherslum nefndarinnar, og þá sérstaklega í nefndarálitinu hérna, sé verið að hnykkja enn frekar á í þá áttina. Ég vil bara vekja athygli á því.

Ég ætla nú ekki að bollaleggja síðan um orsakasamhengið í því hvernig hlutirnir fóru, eins illa og þeir hafa farið, það er langur aðdragandi að því og margir vilja meina að það hafi verið frá því fyrir aldamót, alla vega ákveðin skil 2014 þegar Krím var innlimuð. Úkraínumenn vilja meina og rekja ýmislegt annað árin á undan og það má velta ýmsu fyrir sér, t.d. hvernig samskiptin hafa verið milli stórvelda og slíkt á undanförnum árum og hvaða keðjuverkanir hafa átt sér stað. Bendir hver á annan í því en hér erum við í dag, því miður.