154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir fína yfirferð yfir mál sem ég veit að hann bæði þekkir vel og hefur barist töluvert fyrir. Ég verð að segja að ég er sammála mjög mörgu af því sem fram kom í máli þingmannsins og ekki síst því að ég óska þess að þetta mál verði til þess að við náum að byggja upp þessa mikilvægu atvinnugrein, ekki síst fyrir dreifðari byggðir landsins en þó líka fyrir þjóðarhag í heild sinni, og til þess að svo verði þarf að vanda vel til verka. Ég hef svo sem ekki frekar en aðrir sem tekið hafa hér til máls haft tök á því, þar sem við stöndum hér, að kynna mér þetta viðamikla mál ofan í kjölinn, þessa bók sem frumvarpið er, en bind vonir við að vandað verði til vinnunnar í atvinnuveganefnd og að við náum að fara vel ofan í kjölinn á þessu.

En af því að hv. þingmaður situr ekki lengur í nefndinni þar sem ég á sæti þá langaði mig að nota tækifærið hér og að spyrja hann aðeins út í þessa hluti sem varða það sem mikið var rætt hér þegar hæstv. ráðherra fór yfir málið. Það varðar tímabindinguna á heimildum og síðan hvernig litið er á tekjuöflunina af þessu. Mig langar til að byrja á því að spyrja þingmanninn hvort það sé hans skoðun að hefðum við farið þá leið hér og ráðherra lagt það á borðið að samhliða þessu væri farið í útboð á lífmassa, líkt og t.d. er gert í Noregi, — af því að hv. þingmaður fer í ræðu hér í dag til þess að ræða hvernig staðið er að málum þar — er það eitthvað sem væri að mati þingmannsins algerlega ófrávíkjanlegt í tengslum við önnur markmið þessa frumvarp að byggja upp fiskeldi í sátt við þjóð, (Forseti hringir.) að byggja upp þessa mikilvægu atvinnugrein til langframa? Er það eitthvað sem mun að mati þingmanns standa í vegi fyrir því að við getum (Forseti hringir.) gert þetta með sóma? Eru þetta ófrávíkjanleg markmið, þessi tvö; að þjóðarhagur sé tryggður, (Forseti hringir.) þ.e. tekjurnar, arðsemin í gegnum uppboð og það að byggja upp þessa atvinnugrein?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)