154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:05]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda því til haga að ef lögin halda áfram eins og þau eru í dag þá geta fiskeldisfyrirtækin óskað eftir endurnýjun áður en tími þeirra rennur út, óháð afföllum, vegna þess að það er ekki í lögunum í dag. Þau geta óskað eftir því 2029 eða 2030 að fá aftur 16 ára leyfi. Þetta er það sem við búum við núna og þess vegna er þessi endurskoðun mikilvæg sem hér er búin að eiga sér stað og þessi nýju lög sem hér er verið að bera fram, að við klárum okkur af því að búa betur utan um þessa grein heldur en verið hefur — af því að ég heyri að hv. þingmaður er mér sammála um að það sé ekki í lagi að afföllin séu með þeim hætti sem hér er lýst.

En þá eru það líka hin spurningin. Við getum búið við ástandið eins og það er í dag út í hið óendanlega af því að fyrirtækin, miðað við lagarammann, hafa þessa heimild. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga og ekki síst þegar þetta fer til umfjöllunar í nefndinni. Við þekkjum það alveg að það búa allar atvinnugreinar eða búgreinar meira og minna við einhvers konar afleiðingar vegna affalla. En það er líka, eins og ég sagði hérna áðan, hvergi í nágrannalöndunum okkar sambærilegt, miðað við sjókvíaeldi. Þetta er því framsýn leið sem er hér verið að fara þegar kemur að dýravelferðarsjónarmiðum. Ég bið fólk að hafa það í huga þegar það fer að fjalla um málið í nefndinni.