154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:01]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð aðeins að fá að halda áfram frá því hérna áðan. Breytingarnar sem gerðar voru á frumvarpinu eru dálítið vel raktar í frumvarpinu og varðandi ótímabundið leyfi þá var það líka í samráðsgáttinni í upphafi og breyttist í sjálfu sér ekkert eftir það. En leyfin í dag, sem búið er að veita, gilda a.m.k. til ársins 2032, þannig að við erum í sjálfu sér ekki í öðrum tímaramma heldur en það. Í þessu frumvarpi, og ég vek athygli á því, þá missa þessir aðilar leyfin eftir tæp fjögur ár, eða 2028, ef þeir ganga ekki frá því sín í millum að búa til og skipta með sér smitvarnarsvæðum og ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé í rauninni bara einn á hverjum stað. Handbremsan sem ég nefndi í ræðu minni áðan, það er burðarþolsmatið. Svo auðvitað er Umhverfisstofnun stofnunin okkar sem fylgist líka með. Það er vert að halda því til haga að það er margt hérna undir.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er ekkert ásættanlegt að það séu mikil afföll, hvorki út frá dýravelferðarsjónarmiðum og þaðan af síður rekstrarhagsmunum þessara fyrirtækja. Það er samt verið að setja þessi mörk í fyrsta skipti. Þau eru ekki við lýði í dag. Þess vegna segi ég að það er aukinn dýravelferð í þessu frumvarpi. Afföllin mega sannarlega ekki vera meira en 20% á hverja kynslóð og ein kynslóð er 24 mánaða. Ef það gerist þá dregst leyfilegur lífmassi saman í hvert sinn um 3%. Þannig að það er verið að draga úr heimildum ef fyrirtækin eru ekki að standa sig. Það er mjög mikilvægt að við höldum því til haga því að það er ekki þannig í dag.