154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:47]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil kannski byrja á því að svara því þegar talað er um að það sé engin náttúruvernd í frumvarpinu. Það er m.a. verið að reyna að víkka þá skilgreiningu sem snýr t.d. að því hvað sé villtur stofn þannig að þá sé hægt að styðja við þá stofna sem standa höllum fæti, t.d. með fiskirækt, og það er gert á grunni áætlunar sem hefur verið samþykkt um fisk í ræktun. Það eru gríðarlega hert viðurlög í þessu við lús og öðru slíku. Það er t.d. eitt af þeim markmiðum sem er þá að vernda gönguseiði allra villtra laxastofna. Friðunarsvæði eru útvíkkuð eins og hv. þingmaður væntanlega veit. Þau eru lögfest og þar erum við að reyna að vernda þessa villtu laxfiskastofna og nytjastofna sem geta orðið fyrir erfðablöndun. Eins verða laxaseiði á friðunarsvæðum þá ekki útsett fyrir smiti.

Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar verið er að tala um ekki síst þessi ótímabundnu leyfi hvað verið er að gera hér gagnvart fyrirtækjunum. Það er verið að ýta þeim í þá átt að fjárfesta í allri nýrri tækni og búnaði. Það er líka verið að beita þau hörku ef ekki tekst vel til. Þannig að það er ítarlegri vöktun á vistkerfisáhrifum, það eru rannsóknir á erfðablöndun og vöktun í ám, það eru aðgerðir til að styrkja villta laxastofninn og fyrir áhrifum sníkjudýra á vistkerfi í víðum skilningi. Ég vil því hvetja hv. þingmann til að lesa vel yfir þetta þegar hún heldur því fram að það sé ekki verið að gera neitt hér fyrir náttúruna og að þetta geti engan veginn átt saman.