154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er meðvitaður um að Noregur er eitt fárra landa þar sem þessi leyfi eru ótímabundin. Það er hins vegar í stjórnarsáttmála og kemur skýrt fram að það er verið að reyna að vinda ofan af því, einmitt út af þeim göllum sem eru því samfara. Já, ég hef ekki séð neitt sem sýnir fram á að hér standi til að greiða eða hafi verið greitt eitthvað viðlíka því sem lagt er á eldi í Noregi. En ég man hins vegar eftir því þegar hv. þingmaður beitti sér hérna af mikilli hörku á síðustu metrunum til að lækka þessi gjöld síðasta vor. Og svo dettur hv. þingmaður í þessa skemmtilegu umræðu um hvað auðlind er. Jú, við getum endilega farið í einhverjar heimspekilegar vangaveltur um það en við skulum þá a.m.k. fara meira á dýptina en þegar flokkur hv. þingmanns talar um verðmætasköpun vegna þess að þetta eru kannski náskyldir hlutir. Sjálfstæðisflokkurinn talar um að verðmætin verði til hjá fyrirtækjunum en hann gleymir hins vegar að það er til eitthvað sem heitir menntakerfi, heilbrigðiskerfi. Svo er utanríkisþjónustan sem semur um tolla, aðgang og alls kyns hluti. Það er Hafrannsóknastofnun sem rannsakar. Reyndar er það nú þannig að umsýslan í kringum rannsóknir og utanumhald á sjávarútveginum étur upp megnið af veiðigjöldunum. Auðlind verður ekki til bara með fyrirtæki sem ákveður að byrja að grafa eða byrja að byggja. Auðlind verður til vegna þess að það kemur stuðningur frá samfélaginu, það kemur fólk sem hefur menntun til að búa til auðlindir úr sandi, sementi og vatni og það er svo sjúkrahús sem tekur við ef eitthvað gerist á byggingarstað t.d., svo við förum nú bara yfir í það. Vissulega eiga fyrirtækin heiður skilið og miklar þakkir og allt í lagi að horfa til þess (Forseti hringir.) að þau skapa verðmæti úr auðlindum. En það er síður en svo svo einfalt að auðlind hefjist þegar fyrirtæki byrjar að vinna.

(Forseti (ÁsF): Ég minni ræðumenn á ræðutíma.)