154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það sem var sagt hér um Sundabraut, hún er mikilvægasta samgöngubót sem þjóðin getur farið í á næstu árum. Vonandi verður henni hraðað sem allra fyrst, það er mikilvægt fyrir Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi og landsbyggðina í heild.

Í ræðu sinni sagði hæstv. innviðaráðherra að unnið væri að auknu framboði húsnæðis, að framlög til stofnframlaga verði aukin. Í kaflanum Aðhald í rekstri ríkisins stuðlar að lægri verðbólgu, kemur fram að sérstök áhersla hafi verið lögð á húsnæðisuppbyggingu. Þegar maður rýnir síðan í gögnin og sér að tryggja eigi fjármögnun fyrir byggingu allt að 1.000 hagkvæmra íbúða á ári á gildistímanum — talað er um sérstakan fjárhagslegan stuðning sem er ekki nægilega tilgreindur og væri gott ef hæstv. ráðherra gæti farið nánar út í þennan sérstaka fjárhagslega stuðning sem stuðla á að auknu framboði á húsnæði. Mig langar að benda á það sjónarmið að við erum einfaldlega ekki að gera nægilega mikið í þessum málaflokki. Er ekki kominn tími til þess að ríkið, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin taki höndum saman, líkt og gert var þegar farið var í Breiðholtið með júnísamkomulagi 1964? Þar kom ríkisstjórnin með yfirlýsingu um að byggja 1.250 íbúðir og Ísland var miklu minna samfélag þá. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími til að ríkið fari sterkar inn á húsnæðismarkaðinn í uppbyggingu á húsnæði. Það virðist líta út fyrir, þegar maður horfir á áætlunina sem hér er til umræðu, að verið sé að bíða eftir því að markaðurinn taki við sér og hefji uppbyggingu húsnæðis. Það mun hann ekki gera þegar stýrivextir eru 9,25%.