154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður færist nær málefnasviðinu. Mig langar fyrst að segja hvað varðar búsetumálin að eitt af því sem ríkisstjórnin sammæltist um í heildarsýn sinni á þær aðgerðir sem þar eru, var að skipa vinnuhóp til að fara yfir búsetu, hvort sem hún snýr að umsækjendum um alþjóðlega vernd eða þeim sem hafa fengið endanlega neitun. Sú vinna er að fara í gang og ég á von á því að við fáum út úr því einhverjar tillögur um það hvernig búsetunni verði háttað fyrir þetta fólk og ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því. Hvað gæti færst til ef búseta fyrir þau sem hafa fengið endanlega synjun umsókna sinna um alþjóðlega vernd? Ég er ekki með þær tölur nákvæmlega á hreinu en þær myndu færast þá frá félagsmálaráðuneytinu og það sem er í gegnum samning við Rauða krossinn í dag og til dómsmálaráðuneytisins að öllum líkindum. En þetta liggur ekki fyrir þar sem við höfum ekki fengið niðurstöðu úr þessum vinnuhópi.