154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Mig langar, af því að ég er þingmaður Suðurkjördæmis, Suðurnesjamaður, að halda mig á heimaslóðum. Hér var verið að ræða áðan um þjónustukjarna fyrir hælisleitendur eða flóttamenn. Mig langar aðeins að fara yfir stöðuna á Ásbrú, af því að hún var nefnd hér, þar sem mesti fjöldi flóttamanna er. Eins og við þekkjum var Ásbrú gamla herstöðin. Þaðan fór herinn og slökkti ekki einu sinni í sígarettunum í öskubökkunum, lét sig bara hverfa einn daginn og skildi svæðið eftir. Ríkið fékk það svæði í arf, ekki sveitarfélagið heldur ríkið. Síðan hefur ríkið verið að selja eignir þar og tekið út úr því vel á annan tug milljarða í sölu eigna. Einhverjar eignir voru þó óseldar eða seldar einhverjum aðilum sem ekki voru búnir að koma þeim í not. Núna dvelja þar væntanlega u.þ.b. 1.100 manns sem eru í þjónustu Vinnumálastofnunar.

Í viðtali við Heimildina nýverið var haft eftir hæstv. félagsmálaráðherra að honum hugnuðust ágætlega svona kjarnar. Það væri bara gott að hafa þessa kjarna og safna hópunum saman á einn stað, kannski væri auðveldara að halda utan um þá. Ég vil spyrja hann frekar um þetta. Er það virkilega hans skoðun að það sé gott að hafa svona einsleitan hóp á einum stað? Ég var minntur á byggingu Breiðholts á sínum tíma; þar var verið að horfa til tekjulágra einstaklinga og úr því varð kerfi sem var félagslega erfitt. Við vitum líka um stöðuna í Svíþjóð þar sem þetta var gert nákvæmlega svona, (Forseti hringir.) búnir til byggingakjarnar þar sem útlendingum var hrúgað á sama stað, og þar eru bara stór og mikil félagsleg vandamál.