154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Nú hefur það komið í ljós að Múlalundur hefur staðið sig vel í endurhæfingu fólks. Nú er stefnt að því að búa til nýtt örorkukerfi og það hlýtur mikil reynsla að vera til staðar þarna, það hlýtur að verða horft til þessa staðar til að aðstoða fólk og koma því út á vinnumarkaðinn, þeim sem vilja.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki eðlilegt, eins og staðan er í dag, að við lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks? Og viðaukann? Viðaukinn skiptir nefnilega gífurlega miklu máli upp á kæruleiðir. Ég er sannfærður um að ef við myndum gera það strax værum við alla vega búin að tryggja það, þegar við erum að fara í allar þessar kerfisbreytingar, að það fólk sem í hlut á hefði vörn, það gæti varið sig. Það gæti kært ef það væri óánægt. Við verðum að hlusta á þessa einstaklinga. Þetta er veikt fólk, sumir með geðræn vandamál, og það má ekki raska of (Forseti hringir.) harkalega málefnum þeirra. Við verðum að ræða við þetta fólk og hlusta á það.