154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:51]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei komið hingað upp til að kvarta undan lýðræðinu, hvernig við drögum fram ólík sjónarmið og komumst á endanum að niðurstöðu. Til þess eru takkarnir hérna við sætin okkar, til að ýta á já eða nei eða hjásetu. Það er ótrúleg fegurð í því hvernig við höfum á þessu landi framkvæmt lýðræði í gegnum aldirnar og erum stolt af því. Við höfum á grundvelli þess og þeirrar þrískiptingar ríkisvaldsins sem stjórnarskráin tryggir byggt upp mesta velsældarríki í heimi. Ég hika ekki við að segja það. Það fylgir þessari fegurð við framkvæmd lýðræðisins að kalla fram ólík sjónarmið. Ég bið ekki um að menn séu mér sammála í einu og öllu. Ég virði ólíkar skoðanir en ég ætla að nota ræðustólinn til að segja mína. Hv. þingmaður hafði orðið hér á undan mér og getur komið í andsvör og flutt sínar ræður og haft sína skoðun. Í því liggur fegurðin. En það verða að geta átt sér stað skoðanaskipti þannig að við framkvæmum lýðræðið. Hér er ég þeirrar skoðunar að tíma okkar væri betur varið í annað en að reyna að fella stjórnina og boða til kosninga vegna þess að það er enginn meiri hluti fyrir því hér á þinginu. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi ekki að leggja fram tillögur á þinginu án þess að þær njóti ávallt meiri hluta vegna þess að það þarf að skapa umræðuna. Það er það sem lýðræðið gengur út á. En í þessu tilviki er um algera tímasóun að ræða vegna þess að augljóst er að þingið mun halda áfram. Sú ríkisstjórn sem nú er nýsamansett mun halda áfram að vinna að þeim málum sem fram eru komin í þinginu og munu áfram koma fram. Okkar hugur er hjá þeim sem þurfa á stjórninni og þinginu að halda. Tillaga um að sprengja þingið í loft upp og boða til kosninga gengur gegn öllu því sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að vinna að.