154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem reyndar var í talsvert mikið af gildishlöðnum yfirlýsingum og mörgum röngum. Ef þingmenn hafa ekki áttað sig á því þá er í frumvarpinu, sem fjallar um þessa miklu kerfisbreytingu og liggur fyrir þinginu, fjallað um að gildistakan sé 1. september 2025. Tíðindi gærdagsins eru því engin hvað varðar gildistökuna, ekki nein. Hins vegar er nauðsynlegt þegar þú leggur fram fjármálaáætlun að sýna fram á að þegar breytingar verða á þeirri fjármálaáætlun sem fyrir var, þar sem áður hafði verið búist við að málið hefði komið fram jafnvel í fyrra eða fyrr og tæki þar af leiðandi gildi fyrr vegna þess að það væri búið að undirbúa það, þá hefði verið reiknað með fjármunum í þeirri fjármálaáætlun. Þannig að það er breyting á þeirri fjármálaáætlun sem birtist og var kynnt í gær. Er það ein af veigameiri aðhaldsaðgerðunum? Nei, hún er hluti af þeirri vegferð sem við erum að vinna hér. Gildistakan í frumvarpinu er 1. september. Það er mikilvægt að gefa stjórnkerfinu og atvinnulífinu tækifæri til að takast á við þær breytingar sem frumvarpið kallar á. Það er gert með því að seinka gildistökunni til 1. september eða gefa það upp í frumvarpinu. Fjármálaáætlunin tekur síðan mið af því í þessu efni eins og svo mörgu öðru þegar frumvörp ganga fram í þinginu. Þetta kallar vissulega á það að helst þurfi frumvarpið að klárast í vor. Það má alla vega ekki klárast seinna en mjög snemma í haust til að hægt sé að undirbúa allar kerfisbreytingar (Forseti hringir.) og undirbúa atvinnulífið undir þær breytingar sem þessi kerfisbreyting kallar á.