154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög trúverðugt þegar fyrir liggur góð rýni Alþingis á málinu, með hvaða hætti það sé gert, með gagnsæjum og hlutlægum hætti, jafnræði og þeim þáttum sem við leggjum nú mesta áherslu á í þessu markaðssetta útboði þar sem allir sitja við sama borð, og þegar Alþingi hefur síðan samþykkt þær leikreglur og samþykkt í raun og veru hvernig það skuli gert þá er það fullkomlega eðlilegt eins og í öllum öðrum málum að framkvæmdarvaldinu sé síðan falið að gera það með þeim hætti sem Alþingi samþykkir. Það er auðvitað sá lærdómur sem menn hafa dregið af því sem á undan er gengið. Það er mikilvægt að halda í heiðri öll þessi gildi og tryggja að það sé ekki neinn vafi um að það sé jafnræði, gagnsæi og annað í þeim dúr. Ég held að þessi leið sem hér er valin muni byggja undir trúverðugleika þess að framkvæma þetta með þessum hætti. Ég hlakka til samstarfs við þingið um það og treysti mér alveg til að standa í stafni í fjármálaráðuneytinu þegar við framkvæmum vilja Alþingis í þessu máli eins og öðrum.