154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

916. mál
[13:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður sjálfsagt einstaklingsbundið. Þarna er sem sagt heimild til að fara, ef vörsluaðili er með slíka fjárfestingarkosti, mögulega, ekki skylda, bara heimild — fyrir einstaklinginn þá eru fyrir fram í dag ákveðnar fjárfestingarleiðir hjá vörsluaðilum, niðurnjörvaðar, og einstaklingurinn getur þar af leiðandi bara valið þá um þær leiðir. Það er þá alla vega betra en ekki neitt. Í einhverjum tilvikum kann að vera að einstaklingur hefði hug á að nota hluta af sínum séreignarsparnaði með einhverjum tilteknum öðrum hætti, nýta fjárfestingarleiðir vörsluaðilans að stærstu leyti en setja fjármuni með einhverjum öðrum hætti til að tryggja sér ávöxtun á sinni eigin séreign án þess að sú áhætta vaxi, að það sé áhættusamari fjárfesting. Þess vegna er þetta skref lítið og tekið varfærnislega og ég held að það sé mikilvægt á meðan menn kynnast slíku.

Svo vil ég bara taka undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að koma vinnu við grænbókina hraðar og meira af stað. Það hefur tekið allt of langan tíma. Síðasta endurskoðun tók, ef ég man rétt, ein sjö, átta ár og það gerist voða lítið á meðan ef aðilar sem sitja við það borð segja að það megi ekkert gera hér á Alþingi Íslendinga af því að við séum í samtali. (JPJ: Það er ykkar sérsvið.) Það er, held ég, mikilvægt að þessi grænbókarvinna haldi áfram en ég tel að þetta kollvarpi nú ekki grundvelli þess samtals.