154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hef alveg fullan skilning á hans fyrirspurn. Þess vegna er nú þessi framsaga heldur lengri en kannski hefði þurft þar sem um er að ræða tilraunaverkefni til sex ára og greinargerðin í frumvarpinu er líka umtalsverð. Það má alveg benda á, fyrir þá sem ekki eru inni í þessum geira, að skýring hugtaka er ágæt hérna í 3. gr. frumvarpsins og svo er í fylgiskjali verið að sýna fram á hvaða breyting verði á gildandi lögum, á lagaumhverfinu, ef þetta frumvarp verður að lögum, og það er alveg til fyrirmyndar af því að þetta er flókið úrlausnarefni en hins vegar algjörlega tæknilegs eðlis.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um áhrifin þá ætla ég bara að vísa aftur til þeirra orða sem ég var með hér í lok framsögu minnar þar sem sagt er að það ku vera og vitað er um nokkurn áhuga á þessari reglugerð á meginlandi Evrópu en það er óljóst hvort það sé áhugi eða forsendur hér á landi til að nýta þetta tilraunaverkefni næstu sex ár til að koma hér upp dreifðri færsluskrártækni, þ.e. nýta þessa nýju fjártækni til þess, því þar eru vissulega möguleikar eins og kemur hérna fram í greinargerðinni en klárlega líka áskoranir. Við erum auðvitað frekar lítið land með ekki svo marga aðila sem sinna þessum flóknu fjármálagjörningum.