154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar.

913. mál
[12:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, þetta andsvar hefur ekkert að gera með frumvarpið en það er sjálfsagt mál að skiptast aðeins á skoðunum við hv. þingmann um fyrirkomulagið eins og það hefur þróast á lánamarkaði hjá þeim sem stunda landbúnað. Ætli það sé ekki á árinu 2014, þegar sá sem hér stendur var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Byggðastofnun var hluti af byggðamálum í því ráðuneyti á þeim tíma, að við fólum Byggðastofnun að opna og setja á laggirnar sérstakan lánaflokk fyrir bændur. Byggðastofnun hefur verið að þróa það á síðustu árum, m.a. með stuðningi evrópskra þróunarbanka, og getur fengið lán á hagkvæmari kjörum til lengri tíma sem hafa gert bændum kleift — og kannski í vaxandi mæli og algengasta og jafnvel eina leiðin víða fyrir bændur við kynslóðaskipti eða við uppbyggingu er að fá lánafyrirgreiðslu í gegnum Byggðastofnun á grundvelli þessara lánaflokka sem Byggðastofnun hefur verið að þróa. Það hefur þar af leiðandi kannski verið svolítið svar við því sem hv. þingmaður nefndi áður að hefði verið eina leið landbúnaðarins sem var Lánasjóður landbúnaðarins. Það er auðvitað staðreynd að þegar um er að ræða lánveitingar til mjög langs tíma þar sem ekki er hægt að gera að sama marki arðsemiskröfu eins og menn gera kannski til annarrar áhættusamari starfsemi og veð eru með öðrum hætti þar sem þau tengjast fyrst og fremst búrekstrinum og fjölskyldu viðkomandi aðila að þá þurfa menn að horfa til lengri tíma og með aðeins öðrum hætti. Það hefur gengið ágætlega þarna (Forseti hringir.) þótt vissulega sé þörf á að gera betur. En það er svo annarra að sjá um.