154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú væri ágætt ef hv. þingmaður myndi skýra mál sitt aðeins nánar, hvað hann á nákvæmlega við. Eins og ég fór yfir í framsögu minni er þetta að mínu mati eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja leigumarkaðinn á Íslandi, að beina aðkomu lífeyrissjóðanna að því eins og við höfum séð í öllum öðrum löndum í kringum okkur til langs tíma. Í mínu fyrra starfi í innviðaráðuneytinu, þar sem húsnæðismál voru undir, hef ég átt fjölmörg samtöl við hagsmunaaðila, bæði lífeyrissjóði og aðra, á þessu sviði; og þetta er hluti af einni tillögunni í húsnæðisstefnunni sem er hér fyrir þinginu. Ég tel að ef lífeyrissjóðirnir koma inn með sterkari hætti sé það öllum þessum mörkuðum, ríkissjóði, félögum á leigumarkaði en ekki síst fólkinu í landinu, til verulegra hagsbóta.