154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þegar maður hlustar á ræður forystumanna stjórnarandstöðunnar þá gæti maður stundum fengið það á tilfinninguna að á Íslandi sé mjög erfitt að vera. Staðreyndin er auðvitað sú að Ísland er víðast í fararbroddi á öllum þeim listum þar sem mæld eru lífskjör og líðan fólks. Hér er meiri friður, meira öryggi, hreint vatn, hreint loft, hreinasta loft í Evrópu, ef ég man rétt úr síðustu fréttum, jöfn tækifæri, jafnari en víðast annars staðar. Þannig að það er mikilvægt að fara kannski aðeins yfir fleiri hliðar á málinu heldur en hér hafa verið listaðar upp í síðustu tveimur ræðum og andsvörum þar á undan. En ný ríkisstjórn sömu flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, tryggir áframhaldandi pólitískan og efnahagslegan stöðugleika.

Hér var í ræðum kallað eftir árangri og skilvirkni. Ég held að fyrir þinginu liggi 75 stjórnarfrumvörp. Það er mikilvægt af okkar hálfu að þingið einhendi sér í það, meiri hlutinn mun alla vega vinna að því, að reyna að klára sem flest af þeim málum hér fyrir vorið, almenningi á Íslandi til heilla. Íslenskt hagkerfi er mjög dýnamískt. Hagkerfið hefur náð sér fyllilega á strik í kjölfar heimsfaraldurs og mun hraðar en óttast var í honum miðjum. Ég nefni þetta vegna þess að hér er enn talað um að eitthvað hafi gerst og verið skrýtið í fjögur ár. Það er eins og menn vilji gleyma að hér gekk yfir heimsfaraldur sem ríkissjóður tók verulega á sig og efnahagslífið. Hvort sem litið er til síðustu missera eða áratug aftur í tímann er vöxtur lífskjara hér á landi nánast með eindæmum í samanburði við nágrannalönd okkar. Nánast hvergi meðal þróaðra ríkja hefur verið viðlíka hagvöxtur eins og hér á landi undanfarin þrjú ár, 20%. Hér á landi sem og annars staðar í Evrópu eru þó blikur á lofti hvað varðar hina ýmsu áhættuþætti. Spennan í alþjóðamálum fer því miður síst minnkandi og getur sú þróun haft áhrif á íslenskt efnahagslíf og hefur haft það. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa valdið miklum búsifjum, kallað á kostnaðarsöm viðbrögð stjórnvalda, fyrir utan auðvitað áföllin sem þær eru fyrir þá íbúa sem fyrir þeim verða. Þessar hamfarir eru brýn áminning um hversu mikilvægt það er að ríkissjóður sé hvenær sem er tilbúinn að bregðast við áföllum úr óvæntri átt.

Þrátt fyrir þessar áskoranir árar enn sem komið er vel í íslenska þjóðarbúinu. Þensla undanfarinna ára er í rénun en efnahagsumsvif eru sterk. Þótt verðbólgan og hækkun vaxta hafi haft misjöfn áhrif á heimilin er staða þeirra heilt yfir með besta móti. Eigið fé þeirra sem eiga íbúð hefur aukist mikið og fáir eru í fjárhagserfiðleikum í sögulegum samanburði. Þrátt fyrir hækkun stýrivaxta, sem fóru úr 0,75% árið 2021 í 9,25%, sem þeir hafa verið nú um nokkurt skeið, hafa vanskil á lánum nánast ekkert aukist, sem endurspeglar hve tekjur heimilanna hafa samhliða vaxið hratt á undanförnum árum. Skuldir heimila eru með minnsta móti í hlutfalli við tekjur þeirra. Hlutfall verðtryggðra lána af útistandandi lánum er undir sögulegu meðaltali sem eykur viðnámsþrótt heimilanna gagnvart efnahagsáföllum. Ákveðinn hluti heimila er þó með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það er þess vegna sem við höfum verið að byggja upp hið nýja húsnæðiskerfi og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, m.a. í tengslum við kjarasamninga, um áframhaldandi uppbyggingu á almennum íbúðum og hlutdeildarlánafyrirkomulagið, veruleg hækkun húsnæðisbóta og ákvörðun um einskiptisvaxtabótaniðurgreiðslu koma þessum hópi sérstaklega vel. Sú mikilvæga þróun hefur einnig átt sér stað á undanförnum árum að samhliða öflugum vexti ferðaþjónustu og annarra rótgróinna atvinnugreina hefur fjölbreytt flóra hugverkagreina sótt í sig veðrið og þær eru í auknum mæli drifkraftar útflutningsvaxtar. Með öðrum orðum erum við komnir með fleiri stoðir undir öflugt dýnamískt hagkerfi.

Meginmarkmiðið nú er að standa vörð um þessa sterku stöðu og stuðla að því að verðbólga geti lækkað áfram, rétt eins og hún hefur gert undanfarin ár. Áskorunin er þessi: Það er mikill kraftur í atvinnulífinu, það er hátt atvinnustig, það er lágt atvinnuleysi, en það er enn þensla á vinnumarkaði. Háir stýrivextir og of há verðbólga valda auðvitað of háum fjármögnunarkostnaði. Einkaneyslan minnkar hratt en það þarf fleira til, því að fólk þarf mat og fleiri nauðþurftir. Það þarf fleira að koma til til þess að verðbólgan fari niður. Við þurfum að ná lendingu, ná því jafnvægi þar sem við verjum kaupmáttinn samhliða lækkun verðbólgu og að vextir farið niður án þess að þenslan fari af stað. Töluverður árangur hefur þegar náðst í lækkun verðbólgu sem sýnir að við erum á réttri leið. Verðbólga er nú 3% lægri en fyrir einu ári síðan. Verðbólga varð hæst 10,2% fyrir rúmlega ári en er nú 6,8%. Það er vert að benda á að það hefur gerst án þess að atvinnuleysi hafi aukist að neinu ráði.

Kjarasamningarnir sem nýverið voru gerðir á almennum vinnumarkaði styðja við það að verðbólga geti lækkað áfram. Það felast mikil verðmæti í því að náðst hafi langtímakjarasamningar sem draga úr óvissu. Þá er mikilvægt að kjarasamningar starfsfólks ríkis og sveitarfélaga sem nýlega runnu út verði í takt við þá stefnu sem mörkuð hefur verið á almennum markaði, að um sé að ræða langtímasamninga sem dragi úr óvissu og styðji við lækkun verðbólgu. Aðeins þannig myndast skilyrði fyrir lækkun vaxta hér á landi. Þær aðgerðir sem hið opinbera tók á sig og hefur lagt til hjálpa einnig þeim aðilum sem enn eiga eftir að gera sína samninga.

Hlutverk stjórnvalda er nú að stuðla að því að þær launahækkanir sem samið var um í kjarasamningum skili kaupmætti til launafólks. Það verður gert með því að opinber fjármálastefna styðji við lækkun verðbólgu. Í fjármálaáætlun til áranna 2025–2029, sem kynnt verður í næstu viku, birtist sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar með skýrum hætti. Útgjaldavexti er haldið í skefjum til að stuðla að lækkun verðbólgu og vexti kaupmáttar. Útgjöldum vegna nýrra verkefna, þar á meðal jarðhræringa í Grindavík og aðkomu stjórnvalda að gerð kjarasamninga, er mætt m.a. með aðhaldi í öðrum rekstri. En þeim verkefnum, þ.e. verkefnunum í Grindavík, þurfum við að fylgja eftir. Það er mikil vinna þar enn í gangi. Eðlilega tekur sú vinna tíma en við förum að sjá til lands í ýmsu og jafnframt getum við vonast eftir að hamförunum linni. Til að mynda má nefna að Þórkatla, eða húsauppkaupafélagið, stefnir á að taka ákvörðun um fyrstu kaup í þessari viku og þá verði hægt að greiða út í þeirri næstu. Vegna aukinnar óvissu á alþjóðavettvangi og aukinnar hættu á náttúruhamförum er nefnilega mikilvægt að ríkissjóður eigi borð fyrir báru til að geta brugðist við áföllum sem kunna að ríða yfir án þess að það ógni sjálfbærni skuldahlutfallsins.

Ég vil að lokum segja hér í þessari umræðu að sú ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að halda áfram byggir á því að við ætlum að klára þau verkefni sem við erum með á borðinu, 75 mál hér fyrir þinginu þetta vorið. Ég kalla eftir samvinnu við ykkur öll hér í þinginu til að geta lokið þeim. Það er verkefnið okkar. Við setjumst yfir það: Er hægt að bæta mál, er hægt að finna fram lausnir sem fleiri geta sætt sig við sem við teljum að gagnist betur íslensku hagkerfi, íslenskum almenningi, heimilum og fyrirtækjum? Það er verkefnið okkar og þess vegna er skynsamlegt að við höldum þessu verkefni áfram út kjörtímabilið.