154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

almenn hegningarlög.

131. mál
[18:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en þá er ég að hugsa kannski um þau börn sem gerendur eru að hafa samband við á fölskum forsendum. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að ef börn væru að hafa samband að fyrra bragði væri málið jafnvel fellt á því. En við þekkjum nú öll hvernig hægt er að fela slóðir sínar á samfélagsmiðlum og líka að setja upp grímur svo að fólk þekki þig ekki. Þyrfti ekki að taka einhvern veginn á því? Ég er ekki alveg jafn sannfærð og hv. þingmaður um að börn séu ekki inni á þessum samfélagsmiðlum. Því miður sér maður ansi ung börn á Snapchat og öðrum miðlum, því að þau segja líka til um rangan aldur þegar þau fara þarna inn. Það virðast ekki vera takmörk á því og þá þurfa foreldrarnir kannski að fylgjast með því en stundum er tækniþekking á milli foreldris og barns ekki nægjanleg til þess að foreldri fylgist með. Það var þetta sem ég var að hugsa um, því að samfélagsmiðlarnir eru orðnir eitt verkfæri í höndum þessara afbrotamanna.