154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

almenn hegningarlög.

131. mál
[18:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta frumvarp. Það er nokkuð athyglisvert og þær upplýsingar sem eru í þessu eru eðlilega nokkuð sláandi og vekja upp spurningar sem maður vill helst ekki bera fram, en þær liggja í loftinu. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þeir miðlar sem nú eru í gangi — verið er að tala um að það sé mjög algengt að fullorðnir karlmenn séu að tæla mjög ungar stúlkur til sín á þeim vettvangi, hvort þetta geti tekið á því. Við erum að heyra meira og meira af því að það sé fleiri en einn samfélagsmiðill sem krakkarnir eru að nota í þessum tilgangi, eða fullorðið fólk er að misnota aðstöðu sína gagnvart ungum börnum, hvort sem það eru drengir eða stúlkur. Getur þetta unnið gegn eða, hvað á maður að segja, komið til móts við það?