154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

uppfærsla samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins .

[10:50]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Endurskoðunin og uppfærslan á höfuðborgarsáttmálanum gengur bara vel. Hún hefur vissulega tekið meiri tíma en menn voru að vonast til upphaflega, enda um gríðarlega stórt verkefni að ræða. Ég vil minna á, ég komst bara ekki inn á það í fyrri samskiptum við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, að við höfum verið að búa okkur í haginn inn í langa framtíð til að geta tekist á við þessa innviðaskuld sem varð til eftir efnahagshrunið. Við gerðum ekkert í allt of mörg ár. Núna eru fjölmargar framkvæmdir í gangi og það eru engar tafir. Það eru stofnframkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu innan sáttmálans og það eru verkefni hringinn í kringum landið. Það er mjög margt í gangi.

Við vildum hins vegar auðvitað gjarnan geta spýtt í. Það er það sem ég er að segja að við munum ekki geta gert. Við munum ekki fá nýja fjármuni í ár eða næsta ár til að spýta í eða takast á við það að verkefni hafi orðið dýrari vegna verðbólgu og annarra þátta heldur munum við þurfa að sníða okkur stakk eftir vexti í þessum nærtíma. En það er gríðarlega margt í gangi. Höfuðborgarsáttmálinn er flétta af ólíkum aðgerðum á stofnbrautum, í almenningssamgöngum, í fjölbreyttum ferðamáta, göngu- og hjólastígar. Og það sem ég hef séð inn í þessa endurskoðun er mjög margt jákvætt, arðsemin gríðarlega há, nauðsynlegar framkvæmdir. En við erum að horfa til mjög langs tíma og við þurfum að sjá fyrir okkur að þessi þáttur, jarðgangaþátturinn og samvinnuleiðarþátturinn, sem Sundabraut fellur t.d. undir, verði einnig fjármagnaður með utanaðkomandi fjármögnun, að þetta verði í bland. Við munum aldrei ráða við öll þessi verkefni í samgönguáætlun eða fjármálaáætlun öðruvísi en að fara að (Forseti hringir.) skera verulega niður í öllum tilfærslukerfum. Og ég er ekki viss um að þingsalurinn sé til í það.