154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[17:09]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar greinir okkur á og starfshópurinn sem vann þessar tillögur, þverpólitískur, fólk úr öllum ráðuneytum, aðilar vinnumarkaðarins, er einfaldlega ósammála hv. þingmanni. En auðvitað mun velferðarnefnd þurfa að fara yfir þessi mál, ég er sammála hv. þingmanni um það. Það er mikilvægt að þetta sé allt skoðað. En ég bendi á að við erum hér að tala um húsaleigulög, um breytingar á þeim, og réttarstöðu þar. Við erum hér að ganga eins skynsamlega og varlega til þeirra verka og ég held að hægt sé einmitt í því skyni að takmarka ekki framboð eða fæla ekki fólk frá því að vera á leigumarkaði. Þrátt fyrir að hv. þingmaður og sá sem á undan honum talaði úr sama flokki óttist það þá virðast aðrir ekki gera það sem hafa verið að vinna að þessu, fólk úr þremur ráðuneytum, aðilar vinnumarkaðarins. En svo, af því að talað er um framboð, þá er annað mál hér fyrir þinginu, húsnæðisstefna, þar sem eru 43 aðgerðir og fjölmargar þeirra lúta að því að auka framboð, að auka skilvirkni en það var nefnt í einhverri ræðu að aðalástæðan fyrir því að hér væri ekki byggt nógu mikið af húsnæði væri sú að ekki væri búið að einfalda byggingarreglugerðir og leyfisferla. Þar eru einmitt þær hugmyndir, þær eru allar annaðhvort í vinnslu eða í verki eða komnar fram. 43 aðgerðir í húsnæðisstefnu og ég bíð spenntur eftir að þingið klári það. Þá getum við virkilega brett upp ermar og haldið áfram að spýta í lófana og byggt upp meira húsnæði, líka leiguhúsnæði. Eins og ég held ég hafi nefnt áðan eru 34.000 heimili á leigumarkaði og við þurfum líka að horfa til þeirra en ekki bara til þeirra sem búa í eigin húsnæði.