154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[17:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil byrja á að segja að við erum sammála um að stærsta verkefnið er auðvitað að auka framboð af leiguhúsnæði og búa þannig til meira jafnræði á markaðnum. Það er hluti af því að við erum að leggja þetta frumvarp fram, þ.e. að bæta samningsstöðu leigutaka í því ástandi að framboð er takmarkað. Það má kannski spyrja sig: Hverjar eru helstu áskoranirnar sem frumvarpinu er ætlað að mæta? Og það eru tíðar leiguverðshækkanir og óskýrar reglur um það hvenær og hvernig leiga megi hækka.

Hv. þingmaður ræddi hér mikið um samningsfrelsi og ég er sammála hv. þingmanni um það. Það er auðvitað grundvöllur þessara samninga og það er tekið fram í frumvarpinu að þeir grundvallast á samningsfrelsi. Síðan eru ákveðnar takmarkanir ef þú ætlar að vera með skammtímaleigu, að þar þurfi að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki. Það er mat þeirra sem sömdu frumvarpið, og starfshópsins sem að því kom, að þar sé verið að stíga mjög varlega til jarðar, að það samningsfrelsi sem hér sé sé frelsi með ábyrgð. Og ég vona að hv. þingmaður sé ekki að kalla hér eftir samningsfrelsi annars aðilans eða samningsfrelsi án ábyrgðar. Ég spyr mig, eftir ræðu þingmannsins, hvar þessi gríðarlega íþyngjandi stjórnarskrárbundnu eignarréttindi séu brotin í þessu frumvarpi. Var til að mynda verið að tala hér um leiguþak? Ég spyr hv. þingmann að því. Ég held að hér sé gengið varlega um þær dyr sem eðlilegt er að fara varlega um. Ég bendi á að einhvers konar takmarkanir á ákvörðun leigufjárhæðar, annaðhvort í upphafi eða hækkanir síðar á samningstíma, gilda í 24 ríkjum OECD, í nánast öllum ríkjum sem við berum okkur saman við. Og leigustýring gildir að einhverju marki í nokkrum (Forseti hringir.) Evrópuríkjum, Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi. Það er ekki verið að tala um það hér í þessu frumvarpi, hv. þingmaður, er það?