154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:48]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú kannski akkúrat það sem ég ætlaði að koma inn á í seinna andsvari af því að hv. þingmaður sagði að hann hefði ekki tekið þátt í vinnunni við síðasta frumvarp ef hann hefði vitað að ráðherrann kæmi strax aftur með það sama. Ráðherrann var nefnilega á sama stað og hv. þingmaður og þingið. Ef það voru til betri leiðir þá var ráðherrann tilbúinn að hlusta á það og ráðherranum var sagt af þinginu að það væri hægt að nota gögn úr skattskýrslum af því að þær væru hvort eð er allar skráðar, sem hv. þingmaður óttast mjög, en að þær væru allar skráðar þar, sem ég efast reyndar um. Af því að hv. þingmaður var að tala um svartan markað áðan þá eru rúmlega tveir þriðju sem eru þar af leiðandi ekki í leiguskrá og hversu stór hluti af því er eitthvað sem enginn veit um hef hvorki ég né hv. þingmaður hugmynd um. En ég efast um að hann vaxi við að leiguskráning yrði sett á laggirnar. Ráðherrann, sem er handhafi framkvæmdarvalds og reynir að framkvæma hlutina með sem bestum hætti, hann bara trúði þinginu að þetta væri hægt. Í ljós kom að það var ekki hægt, í ljós kom að í öllum löndum í kringum okkur er þetta ekki gert með þeim hætti. Í ljós kom að í öllum löndum í kringum okkur byggja menn með einhverjum hætti upplýsingar á leiguskrám, enda eru menn að fá upplýsingar um leiguverð og aðstæður á leigumarkaði sem ríkisvaldið, hið opinbera, er að setja verulega fjármuni inn í. Þar af leiðandi skiptir máli að við höfum bestar upplýsingar. En þegar kemur að Hagstofunni, sem er loksins búin að breyta vísitölu húsnæðisverðs og hætt að reikna á grundvelli þess hvert var síðasta kaupverð á síðustu eign í Reykjavík og hækka lán okkar allra landsmanna, hvar sem við búum, á grundvelli þess og er farin að reikna út kostnað húsnæðisverðs á grundvelli leiguverðs, þá liggur náttúrlega í augum uppi að ef Hagstofan fær ekki nægjanlega skýr gögn og er fyrst og fremst með gögn sem geta haldið áfram að sveiflast svona þá yrði þessi afstaða þingmannsins, (Forseti hringir.) ef hún yrði til þess að koma í veg fyrir að málið kláraðist, til þess að áfram ríkti óvissa og sveiflur á vísitölu húsnæðisverðs (Forseti hringir.) sem gerði það að verkum að lán fólks hækkuðu en það væri ekki raunverulegur húsnæðiskostnaður á bak við. (ÓBK: Rangt.) Raunverulegur húsnæðiskostnaður.

(Forseti (OH): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á ræðutímann.)