154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og þakka öllum þeim sem hafa á síðustu dögum og vikum unnið kraftaverk í að bjarga verðmætum og byggja upp þegar náttúruvá hefur gengið yfir, og viðurkenna það fyrir okkur öllum að við munum auðvitað ekki ráða við náttúruna. Við höfum hins vegar allt frá fyrstu dögum þessara umbrota á Suðurnesjum horft til þess að undirbúa okkur. Og eins og kom ágætlega fram í skýrslu forsætisráðherra var settur á laggirnar sérstakur starfshópur.

Í fyrsta eldgosinu prófuðum við að byggja varnargarða til að sjá hvernig við gætum haft stjórn á hraunflæði. Sú reynsla nýttist okkur vel þegar við tókum ákvarðanir um að byggja varnargarða vegna þess að það var talið mikilvægt að vera búin að því, af því það tekur vissulega tíma, þó að það hafi gengið ótrúlega hratt, að reisa varnargarða, m.a. í kringum Svartsengi. Við vorum ekki bara í upphafi þessara umbrota að horfa á Grindavík heldur á Suðurnesin og á þessa mikilvægu innviði sem eru til að mynda í Svartsengi. Og ég hélt satt best að segja að þessi umræða ætti ekki að fara að snúast um pólitíska stöðu og líf ríkisstjórnarinnar, enda væri það fáránlegt, vegna þess að staðreyndin er sú að við höfum frá fyrstu dögum, eins og ég nefndi, kallað fullt af fólki til vinnu og verka til að skipuleggja hvernig er hægt að takast á við náttúruna, undirbúa plan A, plan B, plan C jafnvel, og vera jafnvel tilbúin til að gera fleiri hluti þegar það þarf vegna þess að stundum leikur náttúran á okkur. Stundum vinnum við en stundum vinnur náttúran og þá þurfum við að vera með viðbótarplan. Þess vegna hafa menn getað brugðist við svo hratt sem raun ber vitni í þeim atburðum sem við erum að horfa á núna í baksýnisspeglinum næst okkur.

En það eru vissulega fleiri hlutir. Við þurfum að horfa fram á við og við þurfum að horfast í augu við það að þessir atburðir eru komnir til að vera um einhvern tiltekinn tíma, þangað til kvikuflæðið hættir inn í kvikuhólfið, sem getur auðvitað gerst. Það getur enginn fullyrt það við okkur að það gerist ekki. En við getum hins vegar ekki látið okkur dreyma um að vonast til að það sé lausnin. Við verðum að vera búin að undirbúa okkur fyrir næsta atburð og reyna að teikna upp eins líklegar sviðsmyndir og hægt er og reyna að bregðast við þeim. Það getur verið að okkur takist það. En við skulum ekki vera svo sjálfbirgingsleg að halda að við vitum nákvæmlega hvað gerist næst. Við verðum hreinlega að búa okkur undir eins ólíkar sviðsmyndir og hægt er og forgangsraða síðan þeim fjármunum, þeim tíma, þeim mannafla sem við höfum til að bregðast við á þeim stöðum þar sem líklegast er að tjónið verði og forða því., og síðan að byggja upp til framtíðar og það hefur sannarlega verið gert, alltaf.

Hér var minnst á óveðrið 2019. Í kjölfarið á því var sett fram gríðarleg skýrsla og mikil vinna unnin, m.a. að því að hringtengja alla hluti, hvort sem það er rafmagn, hvort sem það eru veitur, hvort sem það eru fjarskipti eða vegir. Þetta skiptir allt gríðarlegu máli en við getum auðvitað ekki gert allt í einu alls staðar. Það er ekki þannig, ef við horfum nú bara fimm eða tíu ár aftur í tímann, að það hefði átt að setja alla fjármuni til alls á Suðurnesjum. Það eru jú fleiri staðir sem við þurfum að horfa til. Við þurfum að horfa til alls landsins og viðurkenna að það er náttúruvá mjög víða og við þurfum að horfa til þess í skipulagi núna í framtíðinni.

Hér var líka minnst á það sem hefur komið fram að við höfum kannski bara sem þjóð, skipulagsaðilar, sveitarfélögin, ríkið, stofnanir, svolítið sofnað á verðinum vegna þess að það var rólegur tími í náttúruvá á síðustu öld. Við byggðum upp þéttbýli og alls konar veitur og aðra innviði. Ég hef nefnt sem dæmi að það kom flóð í Hvítá árið 2006 sem varð vakning um að flóð gæti meira að segja komið í veg fyrir að það væri skynsamlegt að reisa byggð úti um allar koppagrundir á bökkum Hvítár, sem menn tóku tillit til. Svo liðu reyndar nokkur ár og þá tók einhver sveitarstjórn sig til og gaf síðan leyfi. Ég óttast það þegar næsta flóð kemur að það muni fara illa fyrir þeirri frístundabyggð, svo dæmi sé tekið. Ég ætla bara að segja það úr þessum ræðustól af því að ég horfi upp á það í hvert sinn sem ég keyri fram hjá. Kannski tóku menn nægilega skynsamlegar ákvarðanir og komu í veg fyrir það. En það er það sem við þurfum að gera í framtíðinni.

Við þurfum úti um allt land að átta okkur á því að náttúruváin er til staðar þó að hún hafi ekki ógnað okkur í 100 ár. Hún getur gert það á næstu 50 árum, getur gert það eftir nokkur ár, hún getur gert það þess vegna á næstu mánuðum. Það er mikilvægt til þess að hugsa, hér í þessari umræðu um hamfarirnar á Suðurnesjum, að við erum búin að undirbúa okkur gríðarlega vel. En við getum hins vegar ekki komið hér og fullyrt að við séum búin að koma í veg fyrir allt sem gerist af því að þrátt fyrir okkar virtu vísindamenn og þekkingu þá getum við ekki vitað hvað nákvæmlega gerist. Við getum spáð fyrir um það. Við getum undirbúið það eins og var gert svo vel í þessum hamförum síðustu daga og þess vegna var hægt að grípa til plans B þegar A gekk ekki og vera tilbúin með plan C ef það myndi ekki ganga.

En að lokum bara hrós til íbúa og allra aðila á Suðurnesjum sem að þessum málum hafa komið fyrir frábæra vinnu, fyrir frábæra seiglu, fyrir frábært æðruleysi og bara fyrir verkfræðilegt og atorkulegt afrek að koma þessu í höfn sem við erum með núna. Svo munum við gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að við höldum þessari stöðu. En við erum stundum í kappi við náttúruna, stundum vinnum við en stundum verðum við að sætta okkur við að grípa til plans B, C, jafnvel D.