154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sólmyrkvi.

602. mál
[17:37]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ekki ætla ég að láta það hljóma eins og ég geri lítið úr þessari upplifun eða löngun fólks til að fara og sjá þetta og ég veit að fólk ferðast um allan heiminn. Seint myndi sá sem hér er segja nei, takk við fjárveitingavaldi Alþingis ef hann fengi fjármuni til að gera alls konar hluti, þar á meðal að leggja góðan veg á Látrabjarg. En við erum hins vegar með skammtað fé hér á þinginu. Við forgangsröðum því eftir því hvað við teljum mikilvægast. Þar er umferðaröryggi númer eitt, tvö og þrjú og ég mun halda því áfram. Þar er samstarf við heimamenn mikilvægt. Ef þeir myndu telja að það væri mikilvægast að setja alla fjármuni sem þeir fengju í þetta þá myndum við hlusta á það. Ef þetta myndi verða til þess að tengja byggðir þá myndi innviðaráðherrann hlusta á það, ef við næðum að stækka atvinnusóknarsvæði. Ef við höfum umframfjármuni og þingið veitir af mildi sinni aukið fjármagn til þess að byggja upp góðan veg að Látrabjargi fyrir 12. ágúst 2026, þá skal innviðaráðherra sannarlega biðja sínar stofnanir um að hanna og ganga frá slíkum vegi.