154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sólmyrkvi.

602. mál
[17:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég var nú ekki alveg viss hvort hv. þingmaður væri með fyrirspurninni að meina það raunverulega og kannski ekki alveg augljóst að ríkisvaldið eigi að skipuleggja atburð á einum stað. Ég held reyndar ekki. Það er alveg rétt að væntanlega mun almyrkvinn verða á þessum tímapunkti en hvort það verði búið að skipuleggja mikið af ferðum ferðamanna til landsins skulum við láta liggja milli hluta og hvort veður verði með þeim hætti að almyrkvinn sjáist eins og við þekkjum. En hann verður jú sýnilegur frá öllu vestanverðu landinu og þá sérstaklega Snæfellsnesi og Vestfjörðum, það eru auðvitað fleiri staðir á Vestfjörðum en Látrabjarg, og þess vegna má væntanlega búast við því að ferðamannastraumurinn geti dreifst á fleiri staði.

En ég ætla nú samt að fara yfir það sem hefur verið gert í vegakerfinu um sunnanverða Vestfirði sem er umtalsvert. Ég ætla að láta þá nægja að tala um tengingarnar við Látrabjarg en ekki alla uppbygginguna sem á sér stað á suðurfjörðunum um Gufudal og þá kafla alla saman. Út að Látrabjargi um Örlygshafnarveg og frá Barðastrandarvegi að Látrabjargi er um 46 km langur vegur, þar af eru 10 km með bundnu slitlagi í dag. Það hefur verið unnið að því að lengja það og áfram verður lögð áhersla á að vinna að uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á þann veg. Þannig er fyrirhugað á næstu árum að 5 km muni bætast við og það verður þá komið til framkvæmda á þessum tíma.

Ég held hins vegar að fyrirspurn hv. þingmanns ætti kannski líka að beinast að samtali við ferðaþjónustuna. Það er fyrirséð að mikill fjöldi gesta komi og ég er sammála hv. þingmanni að þetta er stórkostleg upplifun. Reyndar urðu menn fyrr á öldum dálítið skelkaðir þegar sólin hvarf frekar en að þeir yrðu mjög glaðir með það, fyndu fyrir hlýindum í hjarta, ég held að það hafi frekar verið skelfing sem þeir upplifðu. Sólmyrkvinn, almyrkvinn verður eftir tvö og hálft ár og það væri auðvitað hægt að stemma stigu við því ef menn óttuðust að einhver einn staður myndi verða troðinn. Sjálfur myndi ég nú helst vilja bara, ef ég ætlaði að vera á Látrabjargi eða einhverjum frægum og fallegum náttúrustaða, vera einn heldur en með 5.000 manns, svona hv. þingmanni að segja. En það væri hægt að stemma stigu við fjölda bíla með því að skipuleggja rútuferðir og annað í þeim dúr og það er nægur tími til þess. Varðandi innviði sem snúa að náttúrunni, því það þarf jú líka að gæta þess, þá er rétt að beina þeirri fyrirspurn að viðeigandi ráðuneyti.

En stutta svarið hefði sem sagt getað verið svona: Nei, það hafa ekki verið gerðar sérstakar áætlanir um ráðstafanir í vegagerð vegna almyrkva á sólu eftir tvö og hálft ár, þann 12. ágúst 2026, enda hafa nokkuð stærri atburðir kallað á athygli og vinnu starfsmanna Stjórnarráðsins og stofnana þess á síðustu mánuðum. En ég tel að það sé ágætt að taka umræðu um þetta og undirbúa sig og það er auðvitað tækifæri í því að taka á móti fólki, veita þeim þjónustu og hjálpa til við að auka upplifunina ef veðurguðirnir verða með okkur í ráðum þennan dag, 12. ágúst 2026.