154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Reykjavíkurflugvöllur og ný byggð í Skerjafirði.

[10:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Kannski ólíkt þingmanninum þá tel ég þetta mál sem hér er tekið upp hvorki mikilvægasta né bráðasta málið sem við þurfum að ræða þessa dagana þegar við erum að tala um húsnæðismál eða samgöngumál vegna þess að ég tel að það sé í fínum farvegi. Það var gert samkomulag milli ráðuneytis og borgarstjóra fyrir nokkrum árum þar sem stendur, og er unnið samkvæmt, að Reykjavíkurflugvöllur verði í því formi sem hann er og rekstraröryggi og flugöryggi tryggt þangað til annar jafn góður eða betri kostur finnst. Í mínum huga, og ég ítreka það og ég hef sagt það mjög lengi, þá er sá tími þarna í fjarlægðinni, sennilega nær 20 árum. Það skiptir hins vegar máli að taka ákvarðanir mjög langt fram í tímann þegar um mikilvæg samgöngumannvirki er að ræða, ekki bara 20 ár, helst 50 ár, að sjá fyrir sér þróun samfélagsins. Þess vegna höfum við lagt svona mikla vinnu í Hvassahraunsskýrsluna, að vanda hana, geta svarað öllum spurningunum, (Forseti hringir.) svo að hægt sé að taka tímamótalangtímaákvarðanir. En bráðavandinn snýr að öðrum verkefnum þessa dagana og þetta mál er þar af leiðandi ekki að fara neitt. (Forseti hringir.) Það er heldur ekkert sérstakt að gerast. Reykjavíkurflugvöllur er þar og hann verður þar um einhverja framtíð. (BergÓ: Þú varst í viðtali út af þessu í gær í Morgunblaðinu..)