154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

skipulagslög.

628. mál
[14:18]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum varðandi tímabundnar uppbyggingarheimildir. Með frumvarpinu er lagt til að þegar framkvæmdir við uppbyggingu í íbúðabyggð eða á svæði þar sem íbúðabyggð er heimiluð hafa ekki hafist innan fimm ára frá birtingu samþykkts deiliskipulags skuli sveitarstjórn, áður en ákvörðun er tekin um samþykkt byggingaráforma, meta hvort þörf er á að skipulagið verði uppfært í heild eða að hluta.

Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum sem komið hafa fram á undanförnum árum í vinnu stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði um umbætur á húsnæðismarkaði. Þá kveður einnig rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða, sem undirritaður var í júlí 2022, á um framlagningu þessa frumvarps.

Vegna þess ójafnvægis sem einkennt hefur íbúðamarkaðinn undanfarna áratugi þar sem við höfum séð bæði miklar sveiflur í húsnæðisverði og byggingu íbúða hafa stjórnvöld og fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði lagt mikla áherslu á umbætur á húsnæðismarkaði. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið leitast við að greina að hvaða marki þau stjórntæki sem sveitarfélögin hafa nú þegar duga ekki til þess að stuðla að hraðari húsnæðisuppbyggingu. Þegar sveitarfélögin úthluta sjálf byggingarlóðum geta þau sett ákvæði í úthlutunarskilmála eða lóðarleigusamning um að framkvæmdir skuli hafnar og þeim lokið innan ákveðins tíma, ella beri lóðarhafa að skila lóðinni. Þessi staða á þó ekki alltaf við, t.d. þegar um er að ræða enduruppbyggingu í þegar byggðum hverfum eða um lóðir í einkaeigu. Þá geta sveitarfélög til að mynda beitt ákvæðum mannvirkjalaga hefjist byggingarframkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Hins vegar koma slík úrræði ekki að notum þegar tafir verða á því að lóðarhafi leggi fram umsókn um byggingaráform eða byggingarleyfi. Engin ákvæði er að finna í skipulagslögum sem heimilar sveitarstjórnum að setja nánari ákvæði um byggingarhraða eða knýja á um framgang samþykkts deiliskipulags og þar af leiðandi uppbyggingu í samræmi við húsnæðisþörf.

Tafir við uppbyggingu í samræmi við deiliskipulag og húsnæðisþörf hafa ýmiss konar óhagræði og kostnað eða tekjutap í för með sér fyrir sveitarfélög. Sveitarfélögum ber að ráðast í gatnagerð, veituframkvæmdir og aðra innviðauppbyggingu, svo sem byggingu leik- og grunnskóla, án þess að hafa nægilega tryggingu fyrir því að svæðið byggist upp innan fyrirsjáanlegs tímaramma. Þá geta tafir einnig leitt af sér margvísleg óþægindi fyrir eigendur nærliggjandi lóða og íbúa á viðkomandi svæðum en í núgildandi lagaumhverfi geta íbúar þurft að þola óvissu um hvenær og jafnvel hvort framkvæmd á byggingarreit hefst í fyrirsjáanlegri framtíð.

Frumvarpinu er þannig ætlað að svara kalli sveitarfélaga eftir skýrri lagaheimild til að knýja á um að uppbygging samkvæmt deiliskipulagi hefjist og að framkvæmdum ljúki líka innan eðlilegs tíma.

Ýmsar skýringar geta þó verið á því að framkvæmdir við uppbyggingu hefjist ekki strax við samþykkt deiliskipulags. Almennt ætti það að vera sameiginlegt markmið sveitarfélaga sem fara með skipulagsvaldið og veita leyfi til byggingarframkvæmda og gera húsnæðisáætlanir sem og framkvæmdaraðila að uppbygging hefjist eins fljótt og auðið er og að framkvæmdum ljúki innan hæfilegs tíma. Áður en framkvæmd getur hafist þurfa þó allmargar forsendur að vera uppfylltar. Út frá sjónarhóli framkvæmdaraðila getur framkvæmdatími m.a. ráðist af markaðsaðstæðum, fjármagnskostnaði og öðrum þáttum, svo sem því að innviðir verði byggðir upp samhliða framkvæmdunum. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að sveitarstjórnir muni líta til slíkra þátta.

Við gerð frumvarpsins hefur verið haft að leiðarljósi að lagasetningin gangi ekki lengra en þörf er á í þágu almannahagsmuna um að hraða íbúðauppbyggingu. Vert er að undirstrika að hér er um almenna reglu að ræða sem tekur aðeins til uppbyggingaráforma á svæði sem er skipulagt sem íbúðabyggð og öðrum svæðum þar sem íbúðabyggð er heimiluð. Þar fellur einkum undir uppbygging á miðsvæðum og svæðum þar sem gert er ráð fyrir blandaðri landnotkun sem að hluta er íbúðabyggð. Frumvarpið mun því ekki hafa áhrif á uppbyggingu á atvinnu- og iðnaðarsvæðum.

Ljóst er að forsendur skipulags geta að einhverju og jafnvel miklu leyti breyst á fimm árum og er því eðlilegt að lóðarhafar sem ekki hafa gert gangskör að uppbyggingu innan svo rúms tíma geti þurft að sæta því að sveitarstjórn endurskoði uppbyggingarheimildir í deiliskipulagi.

Þá er einnig lögð til breyting á 5. mgr. 51. gr. laganna. Í umræddu lagaákvæði kemur fram sú almenna regla að ef deiliskipulag á þróunarsvæði er breytt eða það fellt úr gildi eftir að framkvæmdatímaáætlun lýkur getur einungis orðið um bótarétt að ræða ef sá sem fyrir tjóni verður af þeim sökum hefur fengið samþykkt byggingaráform eða útgefið byggingarleyfi sem enn er í gildi. Lagt er til að sama regla gildi um breytingar á deiliskipulagi sem leiða af mati sveitarstjórnar.

Má ætla, herra forseti, að frumvarpið feli í sér skýran hvata fyrir lóðarhafa að vinna innan eðlilegs tíma að uppbyggingu mannvirkja á grundvelli gildandi deiliskipulags. Þetta mun vonandi letja aðila frá svokölluðu lóðabraski, en gjarnan hefur verið nefnt í umræðum um drátt á uppbyggingu að dæmi séu um að lóðir gangi kaupum og sölu um árabil án þess að nein uppbygging hefjist. Eftir því sem líður á þann fimm ára frest sem kveðið er á um í frumvarpinu er líklegt að verðmæti uppbyggingarheimilda minnki enda skapast með tímanum óvissa um hvort uppbyggingaráform verði leyfð á sömu forsendum að fimm árum liðnum.

Þá vil ég einnig undirstrika að frumvarpinu er ekki ætlað að gilda afturvirkt og gilda ákvæði frumvarpsins því ekki um deiliskipulagsáætlanir sem tekið hafa gildi fyrir gildistöku laganna. Í þessu samhengi er vert að minnast á að ríki og sveitarfélög hafa sammælst um verkefnið Einn ferill húsnæðisuppbyggingar, í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga, og þar er unnið að því að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Áhersla er lögð á að sameiginlegt meginmarkmið löggjafar verði að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að öruggu húsnæði. Með því að samþætta marga ferla í einn er hægt að fá betri yfirsýn, áætlanagerð verður markvissari og ætti að styðja við hraðari uppbyggingu á húsnæði.

Þá hef ég einnig sett af stað vinnu við gagngerar breytingar á byggingarreglugerð í þeim tilgangi að einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað. Markmiðið er að einfalda stjórnsýslu, auka gæði og neytendavernd með því að stíga þetta framfaraskref í bygginga- og mannvirkjagerð.

Það er von mín að lögfesting frumvarpsins muni auðvelda sveitarfélögum að fylgja eftir og knýja á um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við deiliskipulag. Þá hef ég þá trú að það muni til lengri tíma stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja betur framboð íbúðarhúsnæðis fyrir almenning. Líkt og ég hef áður sagt er stöðugleiki í húsnæðismálum til lengri og skemmri tíma sameiginlegt hagsmuna- og efnahagsmál okkar allra.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem og 2. umræðu.