154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[12:58]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega fullkomin óvissa hvað það varðar og við getum bara haft vonir um að allt fari á besta veg. Hvenær það er síðan um garð gengið vitum við auðvitað ekki. Með þessu erum við að skapa alveg nægilegt svigrúm. Það er verið að skoða hluti sem varðar þá meira kannski langtímastuðning er varðar húsnæðismálin, eins og hv. þingmaður þekkir, og samspil þessara skammtímaúrræða sem við erum í raun og veru að framlengja til að tryggja skjól, greiðsluafkomu og húsaskjól, til næstu mánaða, sem er mikilvægt.

Ég vil líka benda á, og ég veit að þingið mun taka þetta til skoðunar hratt og vel, að ef það gengur vel þá er hugmyndin að þetta taki gildi 1. febrúar þannig að hækkanirnar koma strax til í febrúar þó svo að í lögunum eins og þau eru í dag þá gilda þau út febrúar. Þetta er þá hugmyndin, að þau taki gildi núna strax 1. febrúar þannig að þær hækkanir og 90%-viðmiðin komi þar inn. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt og ég er sammála hv. þingmanni að nefndin þarf auðvitað að fara vel yfir alla þætti þessa máls. Með þessum hætti er klárlega með sértækum hætti verið að koma til móts við Grindvíkinga vegna þeirrar stöðu sem uppi er.

Varðandi aðrar þær vangaveltur sem hv. þingmaður var með þá eru þær kannski eðli máls samkvæmt ekki hluti af þessum sértæka húsnæðisstuðningi en munu án efa koma til til kasta þessara hugmynda um hvernig uppgjöri á húsnæði í Grindavík yrði háttað nákvæmlega varðandi t.d. eignarhald og þar af leiðandi rekstrarkostnað.

Ég þakka fyrir málefnaleg andsvör og umræðu.