154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[12:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að reyna að dýpka aðeins skilninginn á þessu. Það var þannig að þær tölur sem voru settar fram fyrst voru einhvers konar viðmið við það sem við þekkjum úr almenna húsnæðisbótakerfinu. Þar var verið að skoða meðaltöl af leigukostnaði m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu en líka annars staðar og sem betur fer hefur verið talsvert til af leiguhúsnæði líka víðar. Stuðlarnir sem eru í kerfinu eru til að mynda þeir sömu og þess vegna voru forsendurnar að hætta þar við fjóra í fjölskyldu vegna þess að í því mati sem liggur í almenna kerfinu er að það sé ekki stór munur þar á. Svo kom einfaldlega í ljós að fjölskyldurnar í Grindavík eru að jafnaði umtalsvert stærri og þess vegna er verið að bæta þarna við tveimur flokkum, fimm og sex.

Varðandi síðan hækkunina í 90% þá er það heildarfjárhæðin. Þegar það eru fleiri en tveir eða þrír eða fjórir í fjölskyldu þá er þessi tala, þessi stuðningur vissulega að hækka. Þess vegna opnaði ég líka á þessa umræðu um stuðning við einstaklinga og hvort það mætti hugsanlega sameina fyrsta og annan flokk, einfaldlega vegna þess að þar gæti þessi munur ekki dugað. En auðvitað erum við að koma til móts við kostnað en við munum sjálfsagt aldrei í öllum tilvikum geta náð þeim kostnaði.