154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

tekjustofnar sveitarfélaga.

617. mál
[12:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Frumvarpið er liður í því að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er í Grindavíkurbæ vegna þeirrar náttúruvár sem steðjar að sveitarfélaginu um þessar mundir. Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að lögfest verði heimild fyrir Grindavíkurbæ til að lækka eða fella niður álagðan fasteignaskatt sveitarfélagsins á árinu 2024 og hins vegar að tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélagsins taki ekki breytingum á yfirstandandi ári þrátt fyrir þá stöðu sem nú er uppi.

Að kvöldi föstudagsins 10. nóvember 2023 hófst atburðarás sem leiddi til þess að Grindavíkurbær var rýmdur eftir að lýst var yfir neyðarstigi almannavarna. Sú atburðarás hefur staðið nánast óslitið hingað til og forsendur fyrir búsetu og atvinnustarfsemi innan sveitarfélagsins eru nú mjög takmarkaðar þar sem dvöl er ekki leyfð í sveitarfélaginu í kjölfar atburðanna sem hófust aðfaranótt 14. janúar 2024 þegar gaus í næsta nágrenni Grindavíkur og innan varnargarða.

Álagning fasteignaskatts við slíkar aðstæður væri í andstöðu við viðleitni stjórnvalda, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja til að skapa íbúum Grindavíkur greiðsluskjól á meðan aðstæður eru með þeim hætti að þeir geti ekki notið eigna sinna í Grindavík vegna neyðarástands. Hefur sveitarfélagið því tekið til skoðunar möguleika þess að lækka eða fella niður fasteignaskatt sveitarfélagsins á árinu 2024. Er í því samhengi einkum horft til þess að íbúðarhúsnæði mun ekki nýtast eigendum til búsetu á yfirstandandi ári ef fram heldur sem horfir. Hið sama á í meginatriðum einnig við um atvinnuhúsnæði.

Ljóst er að þar sem ekki er að finna skýrar heimildir í lögum um heimild sveitarfélags til að fella niður fasteignaskatt vegna náttúruvár eða annarra neyðarsjónarmiða sem uppfylla lagaáskilnaðarkröfur stjórnarskrárinnar þykir nauðsynlegt að festa slíkar heimildir í lög til að enginn vafi leiki á því að sveitarfélaginu verði heimilt að lækka eða fella niður álagðan fasteignaskatt sveitarfélagsins.

Með frumvarpi þessu, sem unnið var að beiðni sveitarfélagsins og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, er sveitarfélaginu veittar rúmar heimildir til að ákvarða hvernig innheimta fasteignaskatts fer fram á árinu 2024 og einnig er að finna heimildir fyrir sveitarfélagið til að fresta gjalddögum fasteignaskatts um allt að sex mánuði.

Frú forseti. Mikilvægt er að veita stjórnvöldum svigrúm til að greina núverandi stöðu sveitarfélagsins og möguleika til að sinna lögbundnum verkefnum þess. Brýnt er að styðja við stjórnsýslu sveitarfélagsins við þessar aðstæður en hún tekst nú á við fordæmalaust verkefni.

Ljóst er að breytt staða sveitarfélagsins getur haft veruleg áhrif á framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fyrir liggur að skólagerð og nemendafjöldi sveitarfélagsins hefur tekið miklum breytingum vegna þeirra atburða sem hér hafa verið raktir og mun það að öllu óbreyttu hafa áhrif á framlög jöfnunarsjóðs vegna reksturs grunnskóla. Lækkun eða niðurfelling fasteignaskatts í sveitarfélaginu hefur jafnframt áhrif á útreikning svokallaðs fasteignaskattsframlags jöfnunarsjóðs sem veitt er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Sem liður í því að styðja við stjórnsýslu sveitarfélagsins er eðlilegt og sanngjarnt að horft verði til þess að þeir atburðir sem nú eiga sér stað á Reykjanesskaga leiði ekki til lækkunar almennra framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Grindavíkurbæjar á árinu 2024 og er frumvarpinu ætlað að ná því markmiði. Með frumvarpinu er því lagt til að grunnskólaframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og fasteignaskattsframlag jöfnunarsjóðs til Grindavíkurbæjar á árinu 2024 miði við stöðu sveitarfélagsins fyrir náttúruhamfarirnar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.