154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

snjallvæðing umferðarljósa í Reykjavík.

463. mál
[16:18]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa skemmtilegu fyrirspurn. Undanfarin ár hafa ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu unnið sameiginlega að endurbótum á stýringu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu öllu, ekki bara í Reykjavík heldur á öllu svæðinu. Með tilkomu samgöngusáttmálans var stofnaður samstarfshópur ríkis og sveitarfélaga á svæðinu um málefnið en þessir aðilar deila ábyrgð á umferðarljósum á svæðinu og nokkuð augljóst að það er mikilvægt að öll komi að því svo það sé ekki eitt kerfi í einu sveitarfélagi og annað í hinu. Á þessum vettvangi hefur verið unnið markvisst að sameiginlegri stefnumótun og áherslum í umferðarljósastýringum og í apríl 2021 gaf starfshópurinn út fimm ára aðgerðaáætlun sem unnið er eftir.

Umferðarljós eru á yfir 200 gatnamótum og gönguþverunum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Af þeim eru 121 gatnamót og 19 gönguljós tengd miðlægri stýringu umferðarljósa. Á þessum stöðum er fyrirframstillt ljósaáætlun eða stillingar fyrir mismunandi tíma sólarhrings en skipting á milli þeirra er háð umferðarmagni og er stýrt af umferðarskynjurum og eru ljósin því umferðarstýrð. Með öðrum orðum þá er þessum umferðarljósum stýrt með snjalltækni. Sjálfur fer hæstv. ráðherra oft um hverfi höfuðborgarsvæðisins og lendir oft á rauðu ljósi og getur jafnvel orðið pirraður yfir því og þá hugsar hann: Er snjalltæknin ekki betri en þetta? Ég legg til að hv. þingmaður hugsi svolítið til snjalltækninnar, það er ekki víst að hún leysi allan vanda hv. þingmanns á leið sinni um götur Reykjavíkurborgar.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því jafnt og þétt að skipta út eldri búnaði, sem sagt ekki bara hugbúnaðinum, og hefur talsverður árangur náðst síðan samgöngusáttmálinn var undirritaður, hann var svolítið lykillinn að því að ná þessu samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Innkaup hafa þó tafist, m.a. vegna kærumála. Sumarið 2023 hófst vinna við að yfirfara ljósaáætlanir eða stillingar, ef við viljum kalla það það frekar, á umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu og í þessari vinnu er horft til þess hvar hægt er að ná fram bættu umferðarflæði. Er þá horft til ljósatíma og einnig annarra þátta eins og hvort þörf sé á fleiri skynjurum til að auka á gæði umferðarstýringarinnar, þ.e. gera snjalltæknina snjallari en hún er í dag. Áætlað er að niðurstöður þessarar vinnu, ekki starfshóps heldur vinnu, liggi fyrir vorið 2024 sem er hluti af þessari fimm ára starfsáætlun. Þetta gengur með öðrum orðum býsna vel.