154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

álagningarstofn fasteignaskatts.

278. mál
[16:07]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. 24. janúar 2024 er dagurinn sem við unnum handboltaleik en töpuðum samt, en að öðru leyti er þetta dagur hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur sem er með fjölmargar áhugaverðar spurningar í dag. Varðandi fasteignagjöldin vil ég byrja á að benda á að tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti eru einn mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga á Íslandi. Á árinu 2022 námu tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti rúmlega 56 milljörðum kr., sem eru sirka 15% af heildarskatttekjum þeirra í A-hluta. Útsvarið er langstærst, 263 milljarðar, greiðslur úr jöfnunarsjóði eru tæpir 59 milljarðar og tekjur af lóðaleigu eru 6,5 milljarðar. Tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti voru samtals 51 milljarður á árinu 2020 en voru áætlaðar 64 milljarðar á síðasta ári, eða 2023, og gangi áætlanir eftir vaxa þær því um 13 milljarða á þremur árum, eða um 25%. Útsvarið hins vegar óx á sama tíma um 31% og það hefur því vaxið meira heldur en útgjöld fólks til fasteignagjaldsins.

Sveitarstjórnir hafa almennt leitast við að lækka álagningarhlutfall samhliða miklum hækkunum á fasteignamati. Ef hins vegar öll sveitarfélögin hefðu lagt á hámarksálagningu á árinu 2023 hefðu tekjurnar numið 205 milljörðum, ónýttar, ef við getum kallað það svo. Tekjur sveitarfélaga nema því 41 milljarði og um 39 milljarðar af því er upphæð vegna álagningar á íbúðarhúsnæði, 2 milljarðar eru sem sagt á annað húsnæði. Styrkur fasteignastofnsins er mjög misjafn milli svæða og sterkari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þetta endurspeglast í mismunandi álagningarprósentu milli sveitarfélaga. Heimildin er minnst nýtt á höfuðborgarsvæðinu.

Árin 2021 og 2022 var að störfum nefnd í innviðaráðuneytinu sem hafði það hlutverk að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og regluverk jöfnunarsjóðs með það að markmiði að auka fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga. Eitt af því sem skoðað var sérstaklega af nefndinni var álagningarstofn fasteignaskatts og fór nefndin m.a. yfir hvort heppilegra væri að miða álagningu við brunabótamat frekar en fasteignamat. Niðurstaða þeirrar skoðunar var að slík breyting myndi hafa í för með sér að sum sveitarfélög þyrftu að vera með margfalt hærri álagningu en önnur til að geta innheimt sömu tekjur af fasteignasköttum. Nefndin lagði því ekki til að brunabótamat yrði notað við álagningu fasteignaskatts. Fulltrúar atvinnulífs komu á fund nefndarinnar til að ræða þróun og hækkun fasteignaskattstekna og áhrif þeirra á rekstur fyrirtækja. Nefndin ræddi ýmsar leiðir til að setja takmörk á álagningu fasteignaskatta þegar mikil breyting verður á fasteignamati umfram t.d. verðlag eða launaþróun. Var m.a. rætt um hvort tengja mætti breytinguna vísitölu eða setja krónutöluþak eftir tegund húsnæðis.

Það varð engin niðurstaða í þessari nefnd. Hún náði ekki samkomulagi. Eftir sem áður liggur eftir hana mikil vinna sem hægt er að nota. Eitt af því sem mér fyndist áhugavert að skoða væri að búa til einhvern sveigjanleika þannig að þegar mat hækkar mjög mikið eða hugsanlega lækkar mjög mikið þá gerist það ekki í einu skrefi heldur myndi það kannski deilast yfir tvö eða þrjú ár. En ég legg líka mikla áherslu á að umræða um þennan mikilvæga tekjustofn sveitarfélaga sé vönduð og yfirveguð og enn fremur að hlustað verði eftir sjónarmiðum sveitarfélaganna þegar umræða um framtíðarskipan þessa mikilvæga tekjustofns þeirra er uppi. Útfærslum eins og fram hafa komið af hálfu fulltrúa atvinnurekenda verður að vísa til samtals ríkis og sveitarfélaga um skiptingu tekjustofna þeirra á milli.

Niðurstaðan, stutta svarið, er því sú að það stendur ekki til að endurskoða álagningarstofn fasteignaskatts að svo stöddu. Hins vegar er margt í gangi, m.a. er í gangi vinna starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu á vegum fjármálaráðuneytisins sem fulltrúi innviðaráðuneytisins á sæti í. Meðal markmiða þess hóps er að liðka fyrir orkuskiptum, en skattheimta fasteignaskatta á virkjunarmannvirki tekur eingöngu til sumra mannvirkja en ekki annarra. Sveitarfélög hafa því hingað til fengið takmarkaðar tekjur af virkjunum, sum sveitarfélög engar og önnur nágrannasveitarfélög talsverðar, og sjá sér þar af leiðandi stundum ekki hag í því að greiða leið þeirra í gegnum skipulagsferlið. Niðurstöðu þessa starfshóps er beðið en hún gæti orðið tilefni breytinga á þessu afmarkaða sviði, þ.e. á fasteignagjöldum.