154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:37]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að það eru fleiri, bæði þingmenn og fólk í samfélaginu, sem deila þessari skoðun hv. þingmanns. Á sama hátt er ég líka alveg sannfærður um að það séu margir fulltrúar sveitarfélaga sem segja að þetta sé akkúrat það sem þeir óttist mest við landsskipulagið. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að feta þennan milliveg. Þetta er bara í annað sinn sem við erum að leggja fram landsskipulagsstefnu á þinginu og ég tel að í framhaldinu, þegar næstu landsskipulagsstefnur koma, þá munum við kannski líka geta einbeitt okkur að færri þáttum og sett áherslu á þá og klárað þá. Við tókum hérna til umfjöllunar á síðasta ári raflínufrumvarp sem var svona sérstök útgáfa af því að fjalla um mikilvæga innviði. Við náðum þar mjög góðu samkomulagi, held ég, við bæði sveitarfélögin og alla aðra hagaðila sem komu að því þannig að ég held að þetta sé hægt. Það tekur vissulega lengri tíma þegar menn fara hægar en ef það er meiri sátt um það þá held ég að það sé til bóta.