154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:34]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna um þetta. Þetta er auðvitað önnur landsskipulagsstefnan. Það var lagður fram viðauki á síðasta kjörtímabili af þáverandi umhverfisráðherra sem fjallaði kannski meira um loftslagshlutann og hann er auðvitað hluti af þessu plaggi hérna. Við erum meira og minna með sömu löggjöf og á Norðurlöndum og það er fyrirmyndin okkar í þessum skipulagsmálum. Það er landsskipulag, síðan hugsanlegt svæðisskipulag, aðalskipulag sveitarfélaga sem er meginþátturinn og svo deiliskipulag þar sem er nánari útfærsla. Á Norðurlöndunum er alveg klárt að í landsskipulaginu, sem þar á sér lengri sögu og er oftar búið að leggja fram slíka stefnu, eru skýrari ákvæði sem sveitarfélögunum er skylt að fara eftir. Fyrsta landsskipulagsstefnan sem hér var lögð fram var lögð fram í umhverfi sem einkenndist af mikilli tortryggni þar sem sveitarfélögin óttuðust mjög að landsskipulagsstefna myndi taka öll völd af þeim. Ég held að menn hafi lært að svo er ekki. Núna þegar við erum að koma með landsskipulagsstefnu númer tvö er mikilvægt að stíga örlítið fastar fram og með skýrari sýn en ég held að það sé ekki tímabært, þ.e. uppdráttur. Kannski þarf bara meira samtal og þroska og þróun í þetta samtal milli sveitarfélaganna og landsskipulagsstefnu ríkisins, hvernig við gerum þetta. Varðandi mikilvæga innviði til að mynda er það markmiðið með þessari áherslu núna að við notum næstu ár til að móta þessa sýn okkar. Ég er ekki viss um að niðurstaðan verði uppdráttur af Íslandi en í það minnsta verði alltaf í næstu landsskipulagsstefnu skýrari og einfaldari texti. Við erum svolítið að taka yfir allan pakkann af því að við erum með allt undir og það væri svolítið skrýtið að skilja eitthvað eftir. En ef við gerum þetta oftar og á þriggja ára fresti eins og til stendur þá getum við auðvitað farið í að leggja áherslu á færri hluti í hvert sinn.